24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jón Þorkelsson:

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er sprottið af því hugsunarlausasta ákafamáli, sem nokkru sinni hefir verið borið fram hér á þinginu. Bannlagafrumvarpið, sem samþykt var á síðasta þingi, var eitt hið versta frumvarp að öllum frágangi, sem fyrir þingið hefir komið. Það var borið fram af því, að svo vildi til við alþjóðaratkvæðagreiðslu 1908, að nokkrir fleiri menn vildu, að bannlög yrðu samþykt, án þess þó að þau lægu í nokkru formi fyrir þjóðinni, sem hún gæti dæmt um, hversu heppilegt væri eða ekki. Það var svo með mig, eins og líka fleiri, að mér þótti undirbúningur málsins nokkuð hvatvíslegur og vildi eg því að þetta mál, sem meira var komið fram af tilfinningum en vitsmunum yrði borið undir þjóðina aftur í því formi, sem það fékk hér á þinginu. Lögunum var talsvert ábótavant, eins og þau fóru héðan, en höfðu þó verið löguð svo í meðferðinni, bæði af mér og fleirum, að þau urðu þó að lyktum nokkurn veginn skapleg um sumt. Þó stendur þar eftir margt talsvert eftirminnilegt, sem nálgast víst nokkuð stjórnarskrárbrot. Nú eru þessi lög komin á, og á Björn Jónsson fyrv. ráðherra allan heiðurinn fyrir það skilinn. Hann fékk því til leiðar komið, að þau náðu staðfestingu, þó að auðvitað væri talsvert vandhæfi á að koma því fram. Jafnframt skal það Goodtemplurum til lítils heiðurs sagt, hversu þeir hafa þakkað honum dugnað hans í því. Þeir hafa í því eins og mörgu öðru, komið fram jafn blindir og hugsunarlausir og svo merkilega ræktarlausir, að það mun verða ógleymanlegur minnisvarði yfir þeim. Engin blöð hafa ráðist jafn lúalega á þann mann, sem vann þetta stórvirki fyrir þá, og einmitt blöð Goodtemplara. Þetta vil eg að sjáist í þingtíðindunum þeim til maklegs sannmælis, því að verður er verkamaðurinn launanna.

Það hefir verið tekið fram, að þetta frumvarp sé komið frá bannmanni, ekki í þeim tilgangi að hindra að nokkru leyti framgang bannmálsins, heldur vegna fjárhags landssjóðs. Menn greinir nú mjög á um, hvernig hann sé, en það verð eg að kannast við að kraftur bannlaganna, þegar þau koma til framkvæmda, er að engu leyti skertur með þessu frumvarpi. Annað mál er það, að Goodtemplarar hafa hér komið jafn ófyrirleitnislega fram og þeim er lagið. Þeir segja, að það sé óheyrileg óhæfa af bannmönnum, að samþykkja þetta frumvarp, með því greiði þeir nú atkvæði ofan í sjálfa sig. Þó að eg nú greiddi atkvæði með frumvarpinu,. þá tek eg það skýrt fram, að eg kannast alls ekki við, að eg greiði þar með atkvæði ofan í sjálfan mig. Eg segi ekki að eg greiði atkvæði með frumv., eða hvernig eg greiði atkvæði. Það sést á sínum tíma og engan varðar um það þangað til. Eg hefi fengið nógar áskoranir, bæði til þess að vera með frumv. og móti og þær hafa af hendi sumra Goodtemplara verið svo ósvífnar, að þótt eg hafi verið með banninu seinast og sé því frá vissu sjónarmiði hlyntur, þá væri mér næst skapi að greiða nú atkvæði á mót bannlögunum, vegna ósvífni og hótana Goodtemplara. Ef eg nú greiði atkvæði á móti þessu frumvarpi, þá lýsi eg því yfir, að eg geri það mér mjög um geð, sökum framkomu Goodtemplara. Ef þeirra orð hefðu haft nokkur áhrif á mig, þá hefði það verið til þess að fylgja þessu frumvarpi. Verði það samþykt, þá kysi eg helzt, að aftan við frumvarpið yrði bætt því ákvæði, að málið skyldi lagt undir alla kjósendur landsins við kosningarnar í haust, hvort lögunum skuli fresta eða ekki.