24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Eggert Pálsson:

Eg átti ekki von á því, að miklar umræður mundu verða um þetta mál nú. Eg taldi víst, að það mundi umræðulítið verða sett í nefnd, svo sem venja er til með flest mál, jafnvel þótt smámál séu, hvað þá heldur, þegar um stórmál er að ræða, svo sem þetta mun að flestra áliti talið. Eg bjóst við, að háttv. meiri hluta mundi þykja flutningsmaður þessa frumv. þess verður og það sjálft svo mikils vert, að það ætti það skilið, að nefnd væri sett í það. En eftir því sem vindurinn blæs hér í deildinni í dag, þá virðist mér sem svo geti farið, að málið verði felt, bæði frá nefnd og 2. umr. Þessvegna vildi eg leyfa mér að gera á þessu stigi málsins, grein fyrir atkvæði mínu, og hversvegna eg mun greiða atkvæði með því að frv. gangi til 2. umr.

Eg mun greiða atkv. með því, að frv. gangi til 2. umr. í von um, að þá verði hægt að koma með brtill. við það, sem geri það aðgengilegt frá mínu sjónarmiði. Eg vildi taka það fram nú þegar, því annars hefði mátt misskilja atkvæðagreiðslu mína, ef hún hefði umræðulaust af minni hálfu gengið fyrir sig.

Annars stórfurðar mig á því, að mál þetta skuli hafa fengið svo æstar og ofsafengnar viðtökur hér í deildinni, sem raun er á orðin. Það geta þó allir, sem nokkurnveginn heilskygnir eru, séð, að það hljóta að hafa verið miklar og knýjandi ástæður, sem flutnm. þessa máls, sem sjálfur er bannmaður, hefir haft til að koma fram með það, enda þótt hann sjálfur hefði ekki nefnt þær á nafn. Þær ástæður eru vitanlega fyrirsjáanleg fjárþröng landssjóðs og ekkert annað. Eg var, eins og kunnugt er, ekki að eins með bannlögunum á síðasta þingi, heldur líka einn af flutningsmönnum þeirra. En eg var það í þeirri öruggu von og vissu, að stjórnin mundi eitthvað gera, til þess að sjá um, að landssjóði bættist sá mikli tekjumissir, sem hann hlaut að verða fyrir, þegar bannlögin kæmu til framkvæmda. En sú von hefir algerlega brugðist svo gersamlega, að í þeim sökum mundi stjórn andvíg bannlögunum eigi hafa reynst aðgerðarminni en hin fráfarna stjórn. Hún á því sök á því, hvernig hag landssjóðs er komið, eða réttara sagt verður komið, í lok næsta fjárhagstímabils, ef alt er látið reka á reiðanum. Og sé nú þeirri sömu stefnu fylgt af þinginu, ef vér skiljum við fjárhag landsins í fullkominni óreiðu á þessu þingi, þá gerumst vér samsekir hinni fráförnu stjórn, og þá leiðir það að minni hyggju til þess, að skuldinni verður skelt á bannlögin sjálf, og skapar þeim þannig fyrir fram óvinsældir hjá þjóðinni. En frá því vildi eg fyrir mitt leyti forða, ef hægt væri, einmitt af því að eg er einlægur bannlagavinur.

Háttv. þm. Barð. (B. J.) hélt því fram, að það væri móðgun gegn þinginu, að koma nú fram með þannig lagað frv., sem færi þvert ofan í það, sem síðasta þing samþykti. En þess ber að gæta, að ástæður eru nú allar aðrar fyrir hendi, en þá voru, svo það lýsti engum hringlandaskap, þótt þetta frumv. yrði samþykt nú. En hvað sem því líður, þá fara slík ummæli sérstaklega illa í munni háttv. þm. Barð. (B. J.), ekki aðeins með tilliti til þess, að hann sem fráfarandi ráðherra á sökina á því, að ekki hefir verið hugsað um að bæta landssjóði tekjumissinn við brottfall vínfangatollsins, heldur einnig með tilliti til framkomu hans sjálfs á þessu þingi, í öðru máli, samanborið við framkomu hans í sama máli á síðasta þingi, því eins og kunnugt er, barðist hann þá með hnúum og hnefum á móti því, að Danir fengju nokkuð af botnvörpusektunum. En nú aftur á móti hefir hann stutt það með atkvæði sínu, svo að segja gegn um þykt og þunt, og sennilega á allan hátt, sem hann hefir orkað. Óefað hefði hann kallað þetta hringlandaskap hjá öðrum. En því nafni vil eg alls ekki nefna það, heldur lít eg svo á, að hann hafi í þessum efnum tekið sönsum, og skal eg sízt telja hann minni mann fyrir það.

Yfir höfuð eru ekki nema tvær leiðir til þess að komast út úr þeim fjárhagsógöngum, sem fyrir hendi eru, ef bannlögunum er ekki eitthvað frestað.

Önnur leiðin er sú, að stoppa allar fjárveitingar til fyrirtækja, sem miða til framfara og nytja landi og lýð. Og þá leið hefir hin fráfarna stjórn sýnilega valið í fjárlagafrumv., sem hún lagði fyrir þingið. Hin leiðin er sú, að vér nú á þessu þingi samþykkjum einhver toll- eða skattalög, hversu óundirbúin og vanhugsuð, sem þau kunna að vera. En hvorug sú leið virðist mér geta talist tiltækileg. Hvor leiðin af þessum tveimur, sem valin væri, mundi skapa óþökk og óvild hjá þjóðinni. Og sú óvild mundi, því miður, að minni ætlun bitna á bannlögunum, en ekki á þeim, sem í raun og veru eiga hana skilið.

En þótt eg af þessum ástæðum geti gengið inn á einhverja frestun á bannlögunum og sjái eftir atvikum nauðsyn á því, þá álít eg, að 1 árs frestur væri nógur tími til þess að lagfæra það, sem lagfæra þarf. Með 1 árs frestun væri hægt að skila sæmilegum fjárlögum í þetta sinn og undirbúa svo skattamálin og tollmálin í milliþinganefnd, svo hægt yrði fyrirstöðulítið að fá þau samþykt á næsta þingi. Þá væri alt fengið, sem þarf að fá. Róleg og skynsamleg yfirvegun og réttsýni hlýtur hér sem annarsstaðar að verða affarasælust. Með ofstopa og æsingi ávinst ekkert til lengdar. Ef þjóðin sér, að við bannvinirnir viljum gera alt vort til að hinn fjárhagslegi undirbúningur sé sem beztur, þá munu bannlögin halda áfram að njóta vinsælda hjá þjóðinni og verða henni til þroska og þrifa í stað þess að hið gagnstæða getur orðið til þess að skapa þeim aldurtila og það máske þegar á næsta þingi, að nýafstöðnum kosningum.

Af þessum ástæðum hallast eg að 1 árs frestun. Og þó svo ólíklega takist til, að málið verði felt frá nefnd, þá mun eg þó greiða atkvæði með því, að frumvarpið gangi til 2. umr., þar eð þá gæfist kostur á að færa það í það horf, sem eg hefi bent á, og álít, að koma mundi að fullum notum, að hafa frestinn að eins eitt ár í stað þriggja.