21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Bjarni Jónsson:

Eg er því ekki mjög mótfallinn, að landið taki að sér ýmsar atvinnugreinar og verzlunartegundir. Og þess vegna gæti eg vel fallist á þann hluta frumv., en það þarf ekki að vera ölgerð fremur en aðrar atvinnugreinar, og það ætti ekki að eins að vera fyrir Reykjavík eina, heldur einnig fyrir aðra landshluta eða einstaka menn. Hitt finst mér undarlegt, að binda þetta að eins við ölgerð. Í þetta skifti hefir frumv. aðeins bundið sig við ölgerð, en eg álít, að aðrar atvinnutegundir séu betur til fallnar, að þær séu bundnar við einkaleyfi. Þegar aðflutningsbannið kemst á, og menn hætta að drekka sér til gleði, þá munu menn ekki fara að þamba áfengislausar öltegundir, heldur munu menn drekka íslenzkt vatn við þorsta, því að vatnið hér er ágætt við þorsta. Ef það er ráðlegt að setja hér á stofn einokun, þá á ekki að binda það við einstakt bæjarfélag, heldur á að veita það einstökum mönnum, sem uppfylla viss skilyrði, sem stjórnin setur fyrir því, að einkaleyfið fáist.

Hér stendur í frumv., að landsmönnum skuli gefinn kostur á að skrifa sig fyrir ? pörtum af hlutabréfum fyrirtækisins. Þetta finst mér mjög athugavert. Þetta er beinlínis bygt á því, að það muni verða útlendingar, sem leyfið fái og svo á Íslendingum að vera leyfilegt að fá svo og svo mikinn part. Það er þannig ætlast til, að hér séu útibú frá útlendum ölgerðarhúsum og ef þau halda, að þau muni geta grætt meira á því að setja hér upp ölgerð, þá munu þau gera það og gróðinn mun lenda hjá þeim. Þetta hefi eg fundið athugavert í frumv. við fljótan yflrlestur. En það má vera, að það sé margt fleira og hefi eg ekki sagt þetta, til þess að leggja stein í götu frumv., heldur til þess að menn athuguðu það nákvæmar.