21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Framsögum. (Ólafur Briem):

Nefndin tekur að sjálfsögðu vel öllum góðum bendingum og er fús til þess að bera sig saman við háttv. þm. Dal. (B. J.). Honum þótti óeðlilegt, að einokun væri lögð á ölgerð, en reynslan hefir sýnt það hingað til, að þótt það væri frjálst að setja hér á stofn ölgerðarhús, þá hefir það þó ekki verið gert, og er það sýnilega af því, að það hefir ekki þótt álitlegt, meðfram ef til vill vegna þess, að hægt hefði verið að setja upp annað ölgerðarhús við hlið þess, sem hefði kept við það. Þess vegna er farið fram á, að ef stofnað yrði félag í þessu skyni , þá yrði því veitt einkaleyfi til þess það þurfi ekki að óttast samkepni, meðan það er nýtt.

Reykjavík er veitt þetta leyfi, af því þetta er fyrsta sporið og ölneyzlan mundi verða mest hér, af því hér er flest fólkið.

Og þar, sem h. þm. Dal. (B. J.) gat um, að menn mundu ekki drekka svo mikið af öli, þegar menn hættu að drekka sér til gleði, eftir að áfengisbannið væri komið á, þá hygg eg, að menn munu nota óáfenga ölið í staðinn, þó það sé ef til vill ekki að sumra dómi eins ljúffengt og áfenga ölið. Auðvitað eru ekki allar öltegundir jafn ljúffengar en þeir sem hafa drukkið hvítt öl t. d. í Kaupmannahöfn, þegar það er nýbruggað, segja það sé mjög ljúffengur drykkur. Þótt blávatnið úr Gvendarbrunnum sé máske hollast, þá er ekki víst, að fólkið geri sig ánægt með það eitt, en kjósi heldur að hafa ölið með til smekkbætis eða tilbreytingar.

Eins og eg hefi þegar tekið fram, mun nefndin bera sig saman við háttv. þm. Dal.

(B. J.) og reyna til í samráði við hann, að gera frumv. sem bezt úr garði.