24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Bjarni Jónsson:

í ræðu háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) kom fram aðalágreiningsefnið, söluleyfið. Hann segir, að einkaleyfið til þess að selja öl og maltdrykki sé veitt til þess að styðja hið væntanlega ölgerðarhús, en þá eru þar með allir þvingaðir til þess að kaupa alt þaðan, eða að minsta kosti að kaupa ekkert frá öðrum, þótt mönnum líki ekki það, sem frá ölgerðarhúsinu kemur, en þyki annað betra.

Þetta er misrétti, sem hér er beitt við Reykvíkinga. Og með þessu eru teknar allmiklar tekjur frá kaupmönnum bæjarins, þegar þeir missa réttinn til þess að selja þessa vörutegund, sem allmikið selst af, einkum eftir að aðflutningsbannið kemur nú til sögunnar, og jafnvel án þess. Þegar allir kaupmenn alstaðar annarstaðar á landinu hafa þennan rétt, þá er það ljóst, að hér er ekki fylgt réttum grundvelli, og þótt þetta nái ekki nema til öls og maltdrykkja, þá er það misrétti eins fyrir því. Hér er eingöngu um mergðarmun að ræða, en ekki um stefnumun eða réttarmun. Eg verð að halda fast við það, að annaðhvort sé ekkert einkaleyfi veitt, eða það sé þá veitt öllum sýslunefndum og bæjarstjórnum, svo að kaupmenn og aðrir hafi ekki fullan rétt til að kvarta yfir þessu. Mér væri sama, ef þetta gengi jafnt yfir alla, en eg vil ekki, að einungis nokkur hluti verði fyrir því.

Viðvíkjandi því, sem þm. sagði um breyttill. á þgskj. 724, þá skal eg játa það, að mér hafði orðið það í ógáti að orða hana óljósari, en eg vildi. Meiningin var, að ákvæðið skyldi gilda utan hreppsfélagsins. Eg vildi setja þetta til þess að það sæist, að ekki væri stranglega miðað við bæinn sjálfan, heldur gæti verksmiðja verið t. d. á Seltjarnarnesi. Eg skal nú taka tillit til þess, sem hann hefir sagt, og taka aftur þessa tillögu að sinni, en býst við að koma með aðra við 3. umr.