24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

26. mál, skógrækt

Stefán Stefánsson:

Eg tók það fram við 1. umræðu, að mér þættu laun skógræktarstjóra vera ákveðin nægilega há 2400 kr., og til hækkandi launa virtist mér engin ástæða, því þegar hann hefir notið sinna embættislauna um nokkur ár, hygg eg, að hann sé ekki í meiri þörf fyrir há laun en fyrstu embættisárin, þegar mestar líkur eru til, að hann þurfi að borga meira eða minna af hinum mikla kostnaði námsáranna.

Það sem háttv. þm. Dal. (B. J.) leggur til að skógarverðir séu fjórir, eins og nú er, þá verð eg að líta svo á, að það sé með öllu óþarft, því skógræktarstjóri ætti að geta haft fult eftirlit með skóggræðslu á Suður- og Vesturlandi, þó hann einnig hafi yfirumsjón skógræktarmála í Norður- og Austlendingafjórðungi.

Að skógræktarstjóri hafi einnig sandgræðslustarfið á hendi, finst mér aftur á móti ekki heppilegt, því að í fyrsta lagi er lítil trygging fyrir því, að sá skógræktarstjóri, sem nú er, hafi mikla þekkingu í sandgræðslu og í annan stað, þá mundi hann engan tíma hafa til þeirra hluta, enda eru þegar skipaðir tveir sandgræðslumenn, sem hafa aflað sér sérstakrar þekkingar á sandgræðslu og vinna að henni árlega, svo eg sé ekki ástæðu til að veita skógræktaratjóra vald til þess, að blanda sér um skör fram inn í það mál eða það starf, sem þeim mönnum er falið að vinna að, því það mundi fremur draga úr ábyrgðartilfinning og áhuga þeirra á framkvæmdunum.

Hvað viðvíkur skóggræðslunni í landinu, þá er það vafalaust hagkvæmara, að launaupphæð þeirra, sem nú gengur til að launa tveim skógarvörðum á Suður- og Vesturlandi, sé varið til þess að rækta og græða skóg, heldur en til þess að halda við embættum, sem sýnast óþörf.

Á síðasta ári hefir verið varið 7000 kr. til þess að launa skógarvörðum og til kostnaðar við ferðir þeirra og skógræktarstjóra, en litlu fé verið varið til sjálfrar skógræktunarinnar, eða að eins rúmum 3000 kr. Þetta hljóta menn að sjá, hvað fjarri er öllum sanni og því fremur vera með breytingu á þessu fyrirkomulagi, sem menn unna skógræktinni yfir höfuð alls viðgangs í framtíðinni.

Einnig er það fremur ólíklegt, að allir skógarverðirnir séu jafn færir og jafn nýtir skóggræðslumenn og væri því meiri trygging fyrir, að að eins þeir mennirnir, sem bezt hafa reynst, héldu starfanum áfram, en hinir yrðu þá frá honum leystir.

Í 6. gr. laga um meðferð skóga og kjarrs frá síðasta þingi er ákveðið, að hreppstjórar skuli skyldir að fylgjast með skógræktarstjóra og skógarvörðum um hreppinn, ef þeir krefjast þess, til þess að kynnast fyrirskipunum þeirra. Á þessum ferðum fá hreppstjórar 4 kr. um daginn úr landssjóði.

Þetta ákvæði fellur í burtu verði frv. samþykt, enda sé eg ekki, að með þessu hafi verið unnið neitt verulegt gagn fyrir skógræktina, og getur að hinu leytinu valdið talsverðum kostnaði og verið mjög óþægilegt fyrir hreppstjóra í ýmsum tilfellum. En það get eg vel skilið, að þessir skógfræðingar vilji, að hreppstjórarnir. séu þeim til skemtunar um sveitina, en notum af því félagslífi geri eg ekki mikið úr.

Annars hefir nefndin litið svo á, að of miklu fé væri varið til launa og ferðalaga, en tiltölulega litlu fé til sjálfrar skógræktunarinnar.

Viðvíkjandi því, sem sagt var um laun skógræktarstjórans, þá hefi eg litið svo á, að það mætti segja honum upp starfinu, ef hann stæði ekki í stöðu sinni svo sem skylt er.

Annars vonast eg eftir að heyra framsögumann tala aftur í þessu máli, og vænti eg þess þá, að hann taki nánar fram hin ýmsu ákvæði frumvarpsins.