24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

26. mál, skógrækt

Sigurður Sigurðsson:

Mér er það full ljóst, að skógræktarmálið er háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hjartans mál. En hann má ekki líta svo á, að það hafi verið tilgangur flutningsmanna eða nefndarinnar að hefta góðan framgang þess.

Frumvarpið ber það ljóslega með sér, að grundvellinum undir skógræktinni eða skóggræðslunni er ekki haggað. Breytingarnar eru að eins í því fólgnar að gera eftirlitskostnaðinn minni.

Eg tók það fram við 1. umr. málsins, að til skógræktarinnar væri árlega veitt 10,500 kr. Meginhluti þessa fjár gengur til þess að launa með skógvörðum — ekki skógræktarstjóra, því laun hans eru lögákveðin 3000 kr. — og til ferðalaga, bæði skógræktarstjóra og skógvarða. Hefir það nú komið í ljós, að árið 1910 hefir þessi kostnaður numið nálægt 7000 kr. Eru þá að eins eftir 3500 kr. til eiginlegrar skógræktar í landinu. Þetta er hvorki hagkvæm eða rétt brúkun á landssjóðsfé. Og satt að segja held eg, að ekki sé skaði skeður, þó að tala skógarvarða sé takmörkuð fyrst um sinn, Eg held því ekki fram, að minna fé sé veitt til skóggræðslu en áður, heldur að það, sem veitt er, gangi til skógræktar, en ekki í feröalög og laun til manna, sem ekki gera meira gagn en skógarverðirnir.

Eg segi þetta ekki af því, að eg hafi persónulega nokkuð á móti mönnunum, en tilgangurinn er að draga úr eftirlitskostnaðinum. Laun skógræktarstjóra koma þessu máli ekkert við. Hann hefir 3000 kr. laun, ákveðin með lögum og þeim heldur hann, þótt frumvarpið verði samþykt, nema hann brjóti svo mikið af sér, að honum verði sagt upp stöðunni.

Þá er að minnast á sandgræðsluna. Háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) gat þess, að nú sem stendur hefðum við 2 sandgræðslumenn, undir umsjón landsstjórnarinnar, sem starfa að sandgræðslu og gefa mönnum leiðbeiningar. Og talsverðu fé er varið til að girða og græða svæði, sem eru að spillast og blása upp, og sem hægt er að hindra frá eyðileggingu. Það er ekki sagt skógræktarstjóra til lasts, að hann er ekki neinn »specialisti« í sandgræðslu. Aðalsandgræðslustarfið hlýtur því að hvíla á þessum 2 sandgræðslumönnum. En í framtíðinni getur það hugsast, að sá maður verði skógræktarstjóri, sem líka bæri gott skyn á sandgræðslu og þá einkum, ef það væri innlendur maður. Sandgræðsluna verður að byggja á innlendum, íslenzkum grundvelli og reynslu.

Viðvíkjandi skógræktinni ætla eg að öðru leyti að taka það fram, að þar hafa Ungmennafélögin komið meiru áleiðis heldur en lagaákvæðin og starfsmenn skógræktarinnar. Þau hafa haft mikil og góð áhrif á hugsunarhátt manna í þessu máli, og örfað viðleitni einstaklinganna til að planta tré og runna hver hjá sér, enda hefir þessi plöntun aukist mjög síðustu árin, fyrir tilverknað þeirra. Annars skal eg ekki þreyta menn með langri tölu, en vil að eins geta þess enn þá einu sinni, að tilgangur okkar nefndarmanna er sá einn, að hlynna sem mest að skógræktinni og láta það fé, sem til hennar er veitt, koma að sem beztum notum.