24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

26. mál, skógrækt

Bjarni Jónsson:

Eg trúi því vel, að tilgangur nefndarinnar hafi ekki verið að hnekkja skógræktinni, og mér hefir heldur aldrei dottið í hug að drótta því að þeim, en hinu hefi eg haldið fram, að tillögurnar yrðu til þess, á móti vilja flutnm. Eg sé ekki betur en full rök séu komin fyrir mínu máli, og hefir hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) veitt mér drengilega hjálp, svo að eg vona, að deildin sé orðin okkur samþykk. Eg skil ekki í því, að vegurinn til þess að koma málinu í sem bezt horf, sé að draga úr fjárveitingunni. 10 þús. kr. er ekki mikil upphæð, og undarlegt þætti mér, ef það hefði góðar afleiðingar, að taka mikið af þeim í girðingar. Það er sannarlega ekki of mikið í ferðakostnað og laun handa þeim mönnum, sem líta eftir skógum og skógarleifum, gefa mönnum góð ráð og kenna þeim að varðveita og hlúa að skógunum, því að það er meira en tveggja manna verk að prédika, svo það beri nokkurn árangur, fyrir mönnum, sem aldir eru upp við það, að rífa hverja viðartág upp frá rótum og stinga henni undir ketilinn. Það er rétt hjá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) að áhugi manna á að hlynna að skógunum og rækta upp landið hefir aukist mjög fyrir starf Ungmennafélaganna. En afleiðingin af áhuganum er sú, að fjöldi manna vill fara að rækta, og þá verða þeir hinir sömu að ná til manna, sem geta sagt þeim til og gefið þeim leiðbeiningar. Og þegar svo er komið, er sannarlega ekki of mikið, þótt einn slíkur maður sé í fjórðungi hverjum. Ungmennafélögin hafa glætt áhugann, en þau geta ekki lagt til skógarverðina, enda væri það nokkuð lítilþægt af landinu að ætlast til þess, en gera það ekki sjálft. Gróður landsins er mikils virði, og löggjöfin ætti ekki að láta það viðgangast, að einstökum mönnum væri lagt það á herðar að halda honum við. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) sagðist hafa viljað færa töluna niður í 2, til þess að það yrði takmörkuð tala. Eg hélt nú satt að segja, að 4 væru nokkuð takmörkuð tala, því að langt er frá 4 upp í óendanlega stórt. 4 skógarverðir eru að mínu áliti það minsta, sem við getum komist af með, því að þess ber að gæta, að skógræktarstjóri getur ekki verið á einum stað, heldur verður hann að vera á sífeldum ferðalögum til að hafa eftirlit með öllu, bæði skógarvörðum og öðru.

Svo vildi eg minnast á sandgræðsluna. Eg skil ekki, hvers vegna ætti að aðskilja hana frá skógræktuninni. Hver ætti að þekkja betur, hvað er tryggilegt meðal gegn sandi, en skógræktarstjórinn? Hann á að vita, hversu hefta má sandfok með skógrækt, þótt ekki væri nema um hrís, víði eða fjalldrapa að ræða. Það er rétt, er háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) tók fram, að sandgræðsla og skóggræðsla þurfa að vera bygðar á íslenzkum grundvelli. Það þarf að hefta þann íslenzka sand, og þessvegna þurfa menn þeir, er starfa að þessu, að vera íslenzkir, en ekki útlendir. Enda þótt eg verði að játa, að það hafi verið mjög misráðið, að ráða nokkurn tíma þann skógræktarstjóra, er við höfum nú, þá vil eg hins vegar ekki, að okkur farist neitt illa við hann, t. d. að við drögum úr launum hans. En eg geri þær kröfur til hans, að hann setji sig vel inn í störf sín; hann verður að kunna að hefta sand, og verður yfirleitt að vinna sem Íslendingur. Það breytir ekki og á ekki að breyta lögunum, hver það er, sem hreppir skógræktarstjórastöðuna. Eg hygg, að skógræktarlögin frá 1907 hafi ekki verið sett til 4 ára, né lögin 1909 til tveggja. Og hvers vegna vilja menn nú fara að breyta þeim, áður en reynsla er fengin, hversu þau gefast?

Að því er snertir breytingartillögu mína við 5. gr. frv., skal eg ekki þrátta neitt við háttv. framsm. um hana, enda er hér víst að eins um málvenju að ræða, þar sem eg við orðið hrís, skil »betula nana«.

Þá skal eg víkja að hreppstjórunum. Háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) talaði um, að tilgangur frumv. með ákvæðinu um hreppstjórana væri víst sá, að þeir ættu einungis að vera skógarvörðunum og skógræktarstjóranum til skemtunar og gera sér glaðan dag með þeim. En vildi háttv. þm. sekta skógræktarstjórann eða skógarverðina, þótt þeir gerðu sér glaðan dag með hreppstjórum? Það er skýrt tekið fram í frumv., hversvegna hreppstjórar eiga að fara með skógræktarstjóranum. Þeir verða að hafa lögskyldu til að gæta að, hvort fyrirskipunum og ákvæðum um meðferð skóga og kjarrs sé hlýtt. En það er auðvitað ekki meiningin með frumv., að þeir eigi einungis að ferðast um til þess að fá sér í staupinu og gera sér glaðan dag.

Eg vona að háttv. deild skiljist, að rétt sé að samþykkja breytingartillögur mínar. Eg hefi talað við bróður minn um þær, mann, sem hefir sérþekkingu á þessu máli. Hefir hann ráðið mér til þess að koma fram með þær. Eg segi þetta til þess, að háttv. þm. haldi ekki, að þetta sé firrur úr mér. Annars skal eg, án þess að hrósa mér, geta þess, að eg er enginn glópur í máli þessu, því að svo mikið er kent um þá hluti í skóla, að nægir til þess að vita þetta rétt.