24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

26. mál, skógrækt

Einar Jónsson:

Eg er auðvitað hlyntur sparnaðarhugmyndinni, en þó því að eins, að hún stefni í rétta átt. En það gerir hún ekki í þessu máli. Í fyrsta lagi álít eg lækkun á launum skógræktarstjórans ekki lögum samkvæma. Og í öðru lagi álít eg fækkun á skógarvörðunum nokkuð varhugaverða að jafn óreyndu máli og starf þeirra virðist ennþá vera. Verksvið þeirra er þannig vaxið, að árangur getur eigi á fyrsta ári orðið sýnilegur almenningi, enda mun þessi hugmynd vera sprottin af vanþekkingu á starfssviði þeirra, og gæti eg hugsað mér, að hún ætti upptök sín hjá Reykvíkingum, en ekki hjá sveitamönnum. Eg get ekki skilið, hvernig menn geta ætlast til þess, að að eins 2 skógverðir geti afkastað öllum þeim störfum, er þeim er ætlað að leysa af hendi. Og enda þótt Ungmennafélögin gerðu mikið í því að plantsetja og rækta skóg, eru skógarverðirnir eigi að síður nauðsynlegir til þess að kenna þeim og leiðbeina.

Eg skal svo ekki fara frekara út í þetta mál, enda hefir háttv. þm. Dal. (B. J.), sem er mér samdóma, rakið það ítarlega. Bið eg háttv. þm., sérstaklega bændurna, að athuga það vel, áður en þeir greiða atkvæði, að við eigum að hlynna að skógræktinni af fremsta megni.