10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Flutnm. (Pétur Jónsson):

Það lýsir stórum misskilningi á þessu frv., að það er eins og ætlast sé til þess og búist sé við því, að þar sé beitt ósanngirni. Aðaltilgangur frumv. er einmitt sá, að stuðla að fullri sanngirni. Setjum svo, að það sé rétt, að allir eigi sanngirniskröfu til síma, úr því sumir fá hann, og til hans gengur almannafé. En símakerfi, hvort sem það nær til allra eða að eins flestra, kostar mikla peninga, og þeir eru ekki til allir í einu, og verkið kemst heldur ekki í framkvæmd alt í einu. Hvernig sem að er farið, verða sumir í fyrirrúmi og aðrir að bíða að sinni. Frumv. þetta miðar nú að því, að biðin verði sem skemst, og réttlætið sem mest í því, hverjir sitja í fyrirrúmi eftir kringumstæðum.

Hinn háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) efaðist um það, að flokkaskiftingin væri nauðsynleg. Það getur nú verið, að hún hafi ekki mikið að þýða, en hún er gerð til hægðarauka, þar sem þó er allmikill munur á þörf á símunum eftir ásigkomulaginu. Þar sem t. d. svo stendur á, að landssjóður tekur að sér allan kostnaðinn, þá getur enginn haft á móti því, að þeim símum sé raðað í flokk sér. Í öðrum flokki eru þá þeir símar, sem á að taka fyrir með styrk frá hlutaðeigandi héruðum með lánsfé og koma á upp á fastákveðnum tíma. Annað mál er það, hvernig eigi að skipa niður í flokkana, og þar þarf að taka tillit til margs. Væntanleg nefnd getur nú gert sínar tillögur um það, eftir því sem henni finst sanngjarnast, og það er aðalatriðið í frumvarpinu, að þetta takist vel. Auðvitað kunna að vera misfellur á þessu í frumv. enn þá, en þá er að laga þær, og það ætti að vera unt, ef málið kemst til 2. umr. Annars virðist mér sem hér sá fylgt hinni fylstu sanngirni.

Eg skal minnast á það, að háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) rak augun í símalínuna frá Húsavík til Vopnafjarðar, sem sett er í 1. flokk, og vissi ekki, hvers hún ætti að njóta í samanburði við línuna frá Hornafirði til Fáskrúðsfjarðar. Það hefði nú engum dottið í hug að leggja svo mikið upp úr þessari línu (Húsav. — Vopn.), ef hún væri ekki hugsuð sem partur af aðallínunni, sem tengir Reykjavík við útlönd. Það hefir verið mikið rætt um, hvar sú aðallína ætti að liggja, til þess að samband höfuðstaðarins við útlönd væri sem öruggast, og menn hafa verið efablandnir og hræddir um það, að höfuðstaðurinn kynni að tapa sambandinu vegna bilana á landsímanum. Og það hefir nú líka komið í ljós, að miklar bilanir hafa orðið á honum einmitt á milli Vopnafjarðar og Grímsstaða á Fjöllum. Það eru náttúruöflin, sem þessu ráða, og verður ekki við því gert. En til tryggingar gegn þessu, hefir mönnum nú hugkvæmst það ráð, að hafa línuna tvöfalda á þessu hættulega bili, eða jafnvel lengra, austur á Hérað. Það er þessa vegna, að landsímastjórinn hefir lagt þetta til, og það var ólag, að aðallínan var eigi ákveðin þessa leið 1905. En þá var flokkastríð mikið hér á þingi og þetta var dálítið dýrara — að vísu ekki nema 25,000 kr. — svo að nefndin þorði ekki að leggja þetta til þá. Þetta er því ekki gert sérstaklega með tilliti til Norður-Þingeyinga, heldur njóta þeir að eins góðs af og er það ekki nema gott. Ef þinginu virðist þessi trygging óþörf, þá er ekki annað líklegra, en að þessum síma verði kipt aftur í 3. flokk, því að ef hann ætti eingöngu að vera vegna Norður-Þingeyinga, þá er hætt við að hann verði neðarlega. En þótt þetta sé nú svona, þá eru hliðarlengjurnar, sem eiga að tengja kauptúnin við aðallínuna og sem ætlast er til að Norður-Þingeyingar leggi 5000 kr. til, og er það meira að tiltölu en nokkursstaðar annarsstaðar. Það þarf því ekki að öfunda þá. Hin línan er ekki nema fyrir Austur Skaftfellinga eina, en styttir ekkert aðallínuna.

Eg gat ekki komist hjá því að fara út í þetta, til þess að varpa ljósi yfir málið í heild sinni, en um hitt skal eg ekki dæma, hvort línan frá Fáskrúðsfirði til Hornafjarðar ætti að vera í 2. flokki.