03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Eggert Pálsson:

Eg ætla ekki að fara langt út í frumvarpið í heild sinni enda er oss, sem fjarlægir erum Reykjavík, óhægt um tímans vegna, að lagfæra það sem eftir oss kann að verða ritað, ekki greiðara en það gengur með framlagning fundanna. Þótt frumvarpið komi seint fram, er eg þakklátur háttv. flutn.m. (P. J.) fyrir að hafa komið fram með það nú. Því þótt það geti ekki tímans vegna náð nú samþykki þingsins, þá er það góður grundvöllur fyrir næsta þing að byggja á og því ekki ónýtt verk að bera það fram nú.

Eg stend upp til þess að minnast örfáum orðum á breyt.till. okkar þingmanna Rang. á þgskj. 845, sem fer fram á það, að koma Landi og Þykkvabæ inn í símasambandið. Í frumv. er ætlast til þess, að efri hluti Árnessýslu komist í sambandið í framtíðinni. Nú víkur því svo við, að þegar sími er kominn upp í Hreppa, þá er hverfandi kostnaður að halda áfram línunni austur á Land, ekki annað en að strengja yfir Þjórsá. Af þessu getur enginn verulegur kostnaður stafað. — Nokkuð öðru máli er að gegna um línuna niður í Þykkvabæ. Það má að vísu segja, að 2 stöðvar séu þar innan hrepps í þeim hreppi, sem Þykkvabærinn tilheyrir, þar sem eru stöðvarnar við Þjórsárbrú og Ægissíðu, en þær eru báðar á yztu jöðrum Ásahrepps og langur vegur til þeirra úr Þykkvabæ, auk þess sem ófær vötn eru í milli, Djúpós og Þykkvabæjarvötn. Þykkvabærinn er á við hvert meðalkauptún að mannfjölda; þar eru 40 búendur í hvirfingu og mannfjöldinn sennilega um 200 manns eða vel það. Það má því gera ráð fyrir því, að síminn yrði allmikið notaður þar og mundi veita landsjóði töluverðar tekjur, ekki sízt ef Safamýri yrði gerð nothæfari en nú er og bygðin yxi þar með.

Úr því að eg stóð upp, skal eg til athugunar skjóta því til nefndarinnar, hvort 16. og 17. liður 3. gr. sé svo úr garði gerður, sem nefndin vill vera láta og hvort nefndin vill ekki taka til íhugunar það sem eg sagði við 2. umr. fjáraukalaganna, sem sé, að ef lína yrði lögð austur í Vík, má gera ráð fyrir, að hún liggi um Landeyjar og yrði því kippkorn samferða símanum til Vestmannaeyja, svo að sá spotti mundi kosta að áliti símastjórans 12 þús. kr. Það er því of mikið álagt, eins og stendur í fylgiskjalinu, að ætla viðkomandi sýslum að borga 7 þús. kr. til Vestmannaeyjasímans og 6 þús. kr. til Víkursímans. Tillagsupphæðin verður að lækka í öðru hvoru tilfellinu, annað hvort það sem ætlað er til 16. eða 17. liðsins, ella er að minni hyggju tvílagt á sýslurnar. Þessu beini eg til nefndarinnar til íhugunar.