06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Frumv. þetta tók nokkrum breytingum við 2. umr.

Þrátt fyrir þær breytingar, sem á frv. hafa orðið við 2. umr. vil eg mæla með, að það verði samþykt. Ein breytingin er þó þannig, að eg verð að fara um hana nokkrum orðum.

Það er við 6. gr. Þar er sett, að í stað loftskeytasambands við stöð á Grænlandi vestanverðu, skuli vera samband við stöð í Vesturheimi. Mér er ekki ljóst, þar sem það kom ekki fram við umr., hver kostnaðurinn við slíka stöð yrði. Ekki var heldur skýrt frá því, hvert á land í Vesturheimi hún ætti að ná. Væri viðkunnanlegra að semja eitthvað um slíkt við Vesturheimsmenn, áður en í það væri ráðist og vita, hver kjör þar væri á. Enginn efi er á því, að kostnaðurinn á sambandsstöð til Vesturheims yrði að minsta kosti helmingi meiri og hver veit hvað. Kostnaðinn við samband til Grænlands veit maður nokkum veginn um, og það munar ekki svo miklu, hve sú stöð er dýrari, en stöð, sem ætluð er einungis fyrir skip í höfin hér í kringum land, að í það sé horfandi. Þykir mér undarlegt, að einmitt nú, þegar fjárhagurinn ekki er betri en sem stendur, að þá skuli vera otað fram þessari stóru stöð. Raunar þykist eg vita, að þm. N.-Þing. (B. Sv.) muni ekki vilja eyðileggja þetta frumvarp með svona fleyg. En hina mikla sparsemdarmenn, sem við 2. umr. greiddu þessari till atkv. sitt, get eg ekki skilið öðruvísi, en að þeir hafi viljað með henni spilla málinu. Stöð, er næði til Skotlands, mundi kosta c. 60 þús. kr. Eftir vegalengdinni að dæma, mundi stöð til Ameríku kosta að minsta kosti 120—130 þús. kr. og sumir segja 150 þús. kr.

Eg hefi nú vegna þessa komið með 2 breyttill. Önnur er sú, að frumv. verði í sama lagi og áður, en hin til vara, að fella 6. gr. burtu úr frumv. og þar með ákvæðið um loftskeytastöð. Ef greinin fæst ekki færð í samt lag, finst mér það réttara, að þetta sé látið liggja á milli hluta eða utan við þessi lög. Næsta þing gæti tekið málið upp á fjárlög og stjórnin gert nauðsynlegan undirbúning þangað til. Þá gæti legið fyrir kostnaðaráætlanir, mismunandi eftir því, hve sterk stöðin væri, og jafnframt vitneskja um það, hvort aðrar þjóðir vildu taka þátt í loftskeytasambandi til Vesturheims.