06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Sigurður Sigurðsson:

Um brt. mína á þgskj. 936 hefi eg það að segja, að hún miðar að því, að koma frumv. þessu í samræmi við álit og tillögur sýslunefndarinnar í Árnessýslu, viðvíkjandi símalagningum þar. Sýslunefndin hefir gert ráð fyrir því, að símalína verði lögð frá Hraungerði eða Ölfusárbrú upp í Grímsnes og þaðan með tímanum upp í Biskupstungur og austur í Hreppa. Einnig hefir komið til orða að leggja símalínu frá Þjórsárbrú um Skeið og upp í Hreppa. Og þó svo yrði gert, þá kemur það í raun og veru ekkert í bága við orðalag 4. gr., ef tillaga mín verður samþykt. Eg hygg, að fyrir flutnm. frumv. hafi það vakað, að símalínan frá Reykjavík til Þingvalla, er frumv. ráðgerir, yrði lengd alla leið að Geysi. En eg hygg, að betur mundi fara á því, að hin fyrirhugaða símalína frá Hraungerði eða Ölfusárbrú upp í Grímsnes og Biskupstungur, lægi til Geysis. En hvernig sem þessu verður nú fyrirkomið, þá hlýtur bráðlega að reka að því, að símalína verði lögð frá aðallínunni austur, upp í Grímsnes. Það er mjög nauðsynlegt og má ekki dragast lengi úr þessu. Eins og nú er ástatt, þá er öllum uppsveitum í Árnessýslu því nær fyrirmunað að ná til síma, nema með löngu ferðalagi og ærnum kostnaði og fyrir það nota þeir símann mikið minna, en þeir myndu annars gera. Það er því mikilsvert, að fá símann sem fyrst upp í Grímsnes og svo áfram upp í Tungur og Hreppa. Sú lína mundi áreiðanlega borga sig. Eg skal svo ekki eyða fleirum orðum um þessa till. mína, en vænti að hún verði samþykt. Hún hefir í rauninni ekki í för með sér neina efnisbreytingu, heldur að eins orðabreytingu, sem gerir ákvæði greinarinnar ljósari, hvað Árnessýslu snertir.