22.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

9. mál, prentsmiðjur

Flutningsm. (Jón Þorkelsson); Frumv. þetta hefir að eins eitt verulegt nýmæli og er því að mestu leyti samsafn af gildandi lögum um þetta efni, sem nú eru öll komin á víð og dreif, en hafa nú verið sett hér í eina heild. Nýmæli þetta er það, að þjóðbókasafnið í Reykjavík skuli fá 5 eintök af hverri bók, er prentuð er hér á landi. Hingað til hefir háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn fengið 1 eintak, konunglega bókasafnið sama staðar 2 eintök og þjóðbókasafn vort 2 eintök. Þetta þykir kenna misréttis, er komst á um 1820. Prentsmiðjur vorar hafa verið skattgildar um 90 ár undir útlend bókasöfn, þjóðbókasafn vort ekki fengið neitt í staðinn.

Mér finst, að mál sé að afnema þetta misrétti, og sé eg ekkert á móti því að skylda prentsmiðjur til að láta þjóðbókasafninu í tje þau 5 eintök af hverri bók, er hingað til hafa farið 3 af til útlendu safnanna. Slíkt mætti verða til þess að þjóðbókasafnið gæti skiftst á bókum við útlend bókasöfn og fengið á þann hátt ýmsar nauðsynlegar merkisbækur. Nýmæli þetta er aðalmergur frv. þessa og álít eg mál þetta svo þýðingarmikið, að vert sé að athuga það vel, Frv. þetta nemur að því er til Íslands tekur úr gildi tilskipun frá 19. jan. 1821, og jafnframt eru, samkv. 6. gr. frv., öll yngri og eldri lagaákvæði úr gildi numin, er koma í bága við þetta frv.

Vil eg leyfa mér að stinga upp á, að 3 manna nefnd sé kosin til að athuga málið.