26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

75. mál, stjórnarskrármálið

Lárus H. Bjarnason:

Eg hefi ekki skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, enda þótt eg sé ekki allskostar ánægður með sum ákvæði frumvarpsins, eins og breytingartillögur mínar og háttv. 2. þm. Skagf. bera vitni um. En eg skal þegar í stað geta þess, að breytingartillögu mína á þingskjali 748 tek eg aftur, eftir það, að eg hefi borið mig saman við hæstv. forseta um hana.

Eg er, sem sagt, ekki vel ánægður með frumvarpið, enda er ekki við því að búast, að frumvarpið sé vel úr garði gert, er gætt er þess undirbúnings, sem það hefir fengið. Stjórnarskrárfrumvarpið átti að sjálfsögðu að vera stjórnarfrumvarp, og það hefði vel getað komið til mála, að setja í það milliþinganefnd. Það er að miklum mun mikilsverðara en mörg mál, er milliþinganefndir hafa verið skipaðar í.

Það er að miklu leyti undirbúningsleysi að kenna, að búast má við, að litið verði misjöfnum augum á frumvarpið beggja megin pollsins.

En þó að eg sé óánægður með ýmislegt, ætla eg samt að halda mér við breytingartillögur mínar og háttv. 2. þm. Skagf. (Jós. Bj.). Þær eru 7 talsins, en þó er breytingin í raun og veru ekki nema ein, sú, að ráðherra skuli vera einn, en heimilt skuli að fjölga ráðherrum með lögum. Háttv. deild hefir gefist kostur á að heyra þær ástæður, er taldar eru til þess, að nauðsyn sé á fjölgun ráðherra nú þegar, en þær eru ekki fullnægjandi, hvorki þær, er greindar eru í nefndarálitinu, né þær, sem fluttar hafa verið hér í deildinni. Fyrst er talin sú ástæða, að betri trygging fáist fyrir því, að undirbúningur mála verði góður, ef ráðherrarnir séu þrír. En þar sem þingræði er komið á, er engin trygging þess, að ráðherraval fari eftir þekkingu manna og öðrum kostum, og er nokkur reynsla fengin hér í þessu efni. Það er ekki langt síðan stjórn veik frá völdum, sem sízt var sjálfkjörin í þann sess fyrir þekkingarsakir, og annara mannkosta, svo að ekki sé meira sagt.

Önnur ástæðan, sem hv. framsögumaður bar fram fyrir fjölgun ráðherra, var sú, að með fleirmennisstjórn fengist meiri trygging gegn einræði stjórnar milli þinga. — Eg held einmitt þvert á móti, að undir venjulegum kringumstæðum, þ. e. a. s. þegar tvímælalaus meiri hluti ræður, þá væri undir fleirmennisstjórn minni trygging fyrir þingræði, en aftur yrði stjórnareinræðið meira. Þriggja manna stjórn hefði sterkari og víðtækari ítök í flokki sínum, en einmennisstjórn getur haft. Eg get hugsað mér, að það hefði verið erfiðara að koma fyrverandi stjórn frá, ef hún hefði haft með sér, sem ráðherra, 2 aðra menn úr þingflokknum. Eg verð því að líta svo á, að með fleirmennisstjórn yrði stjórnræðið aukið, en þingræðið skert. Þó að einræðishætta kynni að stafa af einmennisstjórn milli þinga, þá er annað ráð til að girða fyrir, og það er þegar komið inn í frumv. Eg á við 13. gr., um að aukaþing skuli halda, þegar meiri hluti hvorrar deildar krefst þess. Í þessu ákvæði felst nægileg trygging gegn einveldi einmennisstjórnar milli þinga.

Þriðja ástæða hv. framsögumanns var sú, að um fleirmennisstjórn myndi verða hægra með stjórnarmyndun, er enginn meiri hluti væri til á þingi. Þetta kann svo að vera, en hv. framsögumaður gerir hér ráð fyrir undantekningarástandi, nefnilega því, að ekki sé skýr meiri hluti á þingi. Enda er ekki nægilega greitt úr, þó að ákveðið væri, að ráðherrar skuli vera þrír; til þess yrði að áskilja hverjum flokki, eða flokksómynd, rétt til að heimta einn ráðherra úr sínum hóp, hversu fámennur sem hann væri. Fjölgun ráðherra bætir því ekki úr þessum agnúa, sem hv. framsögumaður fann í einmennisstjórn.

Fjórða ástæða hv. framsögumanns var sú, að síður myndi hætt við of tíðum stjórnarskiftum, ef ráðherrar væru fleiri en einn. Hér er einnig gert ráð fyrir undantekningarástandi. Venjulega ástæðan til stjórnarskifta í öllum löndum er sú, að kosningar hafa skipað annan meiri hluta, og þá fellur öll stjórnin, hvort sem hún er fámenn eða fjölmenn. Við slíkum stjórnarskiftum spornar fleirmennisstjórn því ekki; enda eru stjórnarskifti óhjákvæmileg afleiðing af þingræði og það aftur af straumbreytingum hjá þjóðinni. Þá er það og ofmælt, að stefnufesta í stjórnarframkvæmdunum hlyti að verða meiri hjá fleirmennisstjórn en einmennisstjórn, því að hún er ekki síður bundin við embættisrekstur hinna föstu stjórnarembættismanna, en við hina skiftandi ráðherra.

Eg get ekki heldur kannast við fimtu ástæðu hv. framsögumanns, að það sé lítt viðunandi að landritarinn verði að gegna stjórnarstörfunum í fjarveru ráðherra, og það oft um langan tíma, enda hefir þetta, mér vitanlega, aldrei komið að baga. Landritari gegnir að eins hinum venjulegu daglegu störfum, en ræður aldrei af eigin rammleik meiriháttar málum stjórnarinnar, vegna þess að hann ber ekki ábyrgð á þeim. Í slíkum málum mun hann alt af leita úrskurðar ráðherra; er enginn hængur á því nú, er símasamband er komið á við útlönd og innanlands, svo að auðvelt er að ná til ráðherra hvar sem hann er. Að minsta kosti væri engin ástæða til að fjölga ráðherrum um tvo vegna þessa ímyndaða agnúa; það ætti að vera nóg að bæta einum við.

Þá hefi eg reynt stuttlega að leiða rök að því, að ástæður hv. framsögumanns um fleirmennisstjórn eru ekki ábyggilegar. Enda ekki þess að vænta að nauðsyn fleirmennisstjórnar verði varin, því að eins og nú hagar til hér á landi ætti það alls ekki að vera ofvaxið einum nýtum manni að stjórna landinu svo að vel færi, ekki sízt með jafnfjölmennu og, að því er ætla má, vel skipuðu aðstoðarliði, sem ráðherrann hefir í stjórnarráðinu. Enda hefir reynsla sú, er vér höfum af fyrsta heimaráðherranum sýnt þetta og hins sama mun mega vænta af þeim ráðherra, sem nú höfum vér. Miðmanninn var ekkert að marka af ástæðum, sem allir þekkja.

Lífskjör vorrar fámennu þjóðar eru svo smá og óbrotin, að störf ráðherra okkar geta ekki talist mikil né erfið. Þau eru aðallega í því fólgin að undirbúa löggjafarmálin til meðferðar á alþingi, sem að eins kemur saman annaðhvort ár, og ekki situr venjulega nema 8—10 vikur; það virðist ekki að ætti að þurfa neinn sérlegan afkastamann til að búa til nokkur lagafrumvörp á c. 22 mánuðnm.

Eg verð því að telja það alls kostar óþarft að fjölga ráðherrum sem stendur, að minsta kosti frá almennu sjónarmiði. Það væri, ef til vill, heppilegt fyrir þá sem langar til að komast í ráðherrasess, því meiri von, því fleiri sem sætin væru, án þess að eg drótti slíkum hvötum að hv. þm. Ísafj., og allra óþarfast að negla þá 3 í stjórnarskrána, svo að ekki verði um þá losað nema með mikilli fyrirhöfn og tilkostnaði. Enda mun ekki títt að ákveða slíkt í stjórnarskrám. Í grundvallarlögunum dönsku er mælt svo fyrir, að konungur ráði því, hve margir ráðherrar séu. Eg vil enda segja, að það sé beinlínis rangt að slá því föstu í stjórnarskránni, hversu margir ráðherrarnir skuli vera; því að hentistefnan verður að ráða tölu þeirra, sem annara embætta. Það getur verið hentugt að hafa þá tvo, eða stundum þrjá; nú sem stendur álít eg nægilegt að hafa að eins einn. Þess vegna er undir öllum kringumstæðum nægilegt að setja inn í stjórnarskrána heimild til að fjölga ráðherrunum, eins og till. mín og háttv. þm. Skagf. fer fram á.

En auk þess sem ástæðulaust er að fjölga ráðherrum, þá ber einnig að líta á þann kostnað, sem það mundi hafa í för með sér. Það hefði mátt búast við, að hinn góði búmaður, hv. þm. Ísafj., sem vill að landið búi svo vel, hefði lagt meira upp úr þeirri hlið málsins; mér þótti hann fara nokkuð fljótt yfir hana. Tilkostnaðurinn við stjórn okkar er nú 50 þús. kr. á ári eða 100 þús. kr. á fjárhagstímabilinu, og er það borið saman við önnur lönd geysimikil upphæð hlutfallslega. Ráðherra hefir nú 14000 kr. í laun, þ. e. 8000 í embættislaun, 2000 til risnu, 2000 til húsaleigu, og 2000 kr. til ferðakostnaðar. Hvorum hinna nýju ráðherra mætti ekki ætla minna en 10 þús. kr. árslaun, þ. e. sömu embættislaun og sama húsaleigustyrk sem nú, en aftur þyrfti ekki að ætla þeim neitt fé til risnu eða utanfara. Þá sjá menn að kostnaðaraukinn yrði 20 þús. kr. árlega. Þó mætti draga frá þeirri upphæð 3000 kr., eða hálf laun landritara; því að það embætti yrði líklega lagt niður, en helming launanna yrði núverandi landritari að halda sem eftirlaunum. Kostnaður til launa ykist því um 17000 kr., að ótöldum eftirlaunum. En auk þess er óhætt að gera ráð fyrir, að auka þyrfti starfskraftana í stjórnarráðinu, því hver ráðherra mundi ekki láta sér nægja ein skrifstofa; og ofan á alt þetta yrði nauðsynlegt að umsteypa stjórnarráðshúsinu, og jafnvel byggja ofan á það, en það gæti kostað tugi þúsunda. — Eg get ekki neitað því, að mér þykir það koma dálítið kynlega við, að það skuli aðallega vera sá flokkur, sem hefir kent sig við þjóðræði, sem leggur það til að þessum kostnaði verði dembt á þjóðina að henni fornspurðri. Það er ekki heldur sem sannsýnilegast, að þessi sami flokkur, sem nú kallar sig Sjálfstæðisflokk, skuli óður og uppvægur leggjast í þennan kostnað, sem alls ekki miðar í þá átt að auka sjálfstæði landsins, en skuli á hinn bóginn neyta allra bragða til að koma háskólamálinu fyrir kattarnef, máli, sem af er alt annað sjálfstæðisbragð, en af þessari óþarfa embættismanna fjölgun.

Eg gat þess í upphafi ræðu minnar, að þó eg væri ekki ánægður með öll ákvæði frv., þá ætlaði eg ekki að fara út í þau nú. Þessi orð áttu að eins að vera meðmæli með brtill. minni og hv. þm. Skagf. á þskj. 717.