22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

9. mál, prentsmiðjur

Sigurður Gunnarsson:

Eg er hinni háttv. nefnd samdóma um flest atriði þessa máls, en þó er eitt atriði, sem eg get ekki fallist á, og það er það, að 3. liður 2. gr. frv. falli niður, nefnilega að bókaútgefendur hafi þá skyldu á hendi, að veita hinum fjórum bókasöfnum út um landið ókeypis eintök. Mér sýnist ekki enn tími til þess kominn. Það er rétt að hlynna að þessum söfnum, því þau gera mikið til þess að auka fræðslu, þar sem að öðru leyti er skortur bóka. Háttv. framsm. (B. J.) þótti hart að leggja þessa kvöð á bókaútgefendur. Honum fanst, að með því móti væri hann sviftur vissum kaupendum, en hinu kvaðst hann betur una, að láta fátæklingum í té nokkur eintök ókeypis. Enginn kaupandi hyrfi fyrir það. En nú er þess að gæta, að söfnin út um landið koma einmitt fjölda mörgum fátækum mönnum ekki sízt að góðu. Til þessara bókasafna nær fjöldi fátækra alþýðumanna, námfúsra manna, sem að öðrum kosti mundi ekki verða þess auðið að ná til bóka að neinu ráði, og einmitt með því að láta af hendi þessi eintök bóka, er núverandi löggjöf gerir ráð fyrir, við söfnin, mundi háttv. framsm. ná bezt þeim góða tilgangi sínum, að hlynna að félitlum, námfúsum mönnum úti um land. Eg vonast til, að fleiri verði mér samdóma um þetta mál, og legg til, að breyt.till. sú, er hér um ræðir, verði feld.