22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

9. mál, prentsmiðjur

Sigurður Gunnarsson:

Þessi orð mín áðan hafa líklega ei fundið náð fyrir augum háttv. framsm. minni hl. (J. Ó.) og líklega heldur ekki fyrir augum háttv. framsm. meiri hlutans (B. J.) Háttv. 2. þm. S.Múl. (J. Ól.) vildi bæta það upp, að fjórðungsbókasöfnin væru svift bókum þeim, sem þau hingað til hafa fengið ókeypis, með því, að landssjóður legði þeim meira fé til bókakaupa. Eg hefði ekkert á móti því, ef hann gæti sannfært mig um, að það yrði meir en orðin tóm. En þegar hann sagði, að bókasöfnin út um landið væru að eins fyrir embættismenn og verzlunarmenn í kaupstöðunum, þá vil eg mótmæla því sem algerlega röngu, þar sem eg er kunnugur, nfl. í Stykkishólmi. Eg hefi því miður ekki við hendina útlánabók Stykkishólmsbókasafnsins, en eg hefi oft blaðað í henni og hún bendir á alt annað en háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) segir. Þessi orð hans hljóta því að vera sprottin af ókunnugleika, því að safnið er mjög mikið notað í sveitunum, þó að gefi að skilja, að kaupstaðarbúar og nærsveitamenn hafi mest not af því. En því er enn frekar svo varið hér í Reykjavík með hin stóru söfn, þau eru mest fyrir Reykvíkinga og nærsveitir, þótt þau séu eign landsins og eigi að vera fyrir alla landsmenn.