22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

9. mál, prentsmiðjur

Benedikt Sveinsson:

Það hafa tveir hv. þingm. bent á kvaðir þær, sem bókaútgefendum væru lagðar á herðar með því að skylda þá til þess, að láta fjórðungsbókasöfnin hafa eintak af hverri bók, sem út væri gefin. En eg vil benda á, að með brtill. á þgskj. 221 er verið að létta kvöðum af þeim, þar sem þeir eru undanþegnir því, að gefa þrjú eintök af hverri bók til útlendra bókasafna. En hv. nefnd hefir ekki látið sér nægja með það. Hún vill létta kvöðinni enn þá meir, með því að láta engar bækur ganga ókeypis til fjórðungsbókasafnanna. En til þess sé eg ekki fulla ástæðu. Menn verða að gæta þess, að þessum fáu söfnum er skylt að eiga allar þær bækur, sem út koma á íslenzku. Það er heimtað af þeim, til þess að þau komi að nokkrum notum. En þegar þess er gætt, hve margt og mikið er gefið hér út, þótt misjafnt sé að gæðum, þá yrði það mikill kostnaður og erfiði fyrir söfnin að ná í það alt, og eini vegurinn til þess yrði sá, að taka af því fé, sem þau hafa áður notað til þess að ná sér í nytsamar, útlendar bækur. En það væri mjög óheppilegt. Eg vil því vona, að 4. brtill. við 3. málsgr. 2. gr. á þgskj. 221 verði feld, enda hefir einn nefndarmaður, hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), tekið vel í það. Ef menn eru hræddir við, að það spilli bókasölu, að þessi eintök eru látin í söfnin, þá mætti girða fyrir það með því að skylda söfnin til þess að lána ekki sögubækur, sem almenningur sækist helzt eftir, eins og mun eiga sér stað hér á landsbókasafninu. Þannig yrði bæði náð þeim tilgangi, að bókasala spiltist ekki, og líka hinum að styðja söfnin. Það er á stjórnarinnar valdi, að semja skynsamlegar skipulagsskrár fyrir söfnin, ef þær eru ekki til áður.