22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

9. mál, prentsmiðjur

Framsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Út af því, sem sumir háttv. þm. hafa haldið því fram, að nauðsynlegt væri, að fjórðungsbókasöfnin fengju allar íslenzkar bækur ókeypis, vildi eg leyfa mér að spyrja: Því er meiri ástæða að gefa þessum 4 söfnum í 4 kaupstaðarholum meira heldur en öllum þeim fjölda manna, sem ekki ná til þeirra?

Við veitum nú sem stendur 3 fjórðungsbókasöfnum og bókasafninu á Ísafirði mjög rífan fjárstyrk, og þegar sú upphæð er borin saman við bókaútgáfuna á Íslandi, kemur það í ljós, að styrkurinn er 3 ef ekki 4 sinnum meiri en verð íslenzkra bóka, sem árlega eru gefnar út. Það er því auðsætt, að mestum hluta styrksins er eytt til kaupa erlendra bóka og nokkuð til bókbands. Það tjáir ekki að mótmæla því, að styrkur þessi kemur að eins litlum hluta landsmanna að notum, kaupstöðunum og örfáum mönnum í nærsveitum þeirra. Og því eiga t. d. Stykkishólmsbúar meiri heimtingu á að fá ókeypis bækur til aflestrar en aðrir landsmenn, sem ekki ná til safnanna? Nei! Styrkurinn er að eins fyrir embættismenn og verzlunarmenn í kaupstöðunum, því að alþýða manna gerir ekki mikið að lestri útlendra bóka. Er þetta jafnrétti eða réttlæti? Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) gat þess, að semja mætti skipulagsskrá fyrir söfnin og ákveða, að þau mættu ekki lána út skemtibækur, en það sem fyrir okkur nefndarm. vakti og hv. þm. 1. Rvk. (J. Þ.) hélt fram, þótt hann sé nú genginn frá því, var það, að söfn þessi eru ekki nein bókavarðveizla. Það er að eins eitt safn, sem er bókasjóður og varðveizla landsins, og það er landsbókasafnið. Hin eru það ekki, hjá þeim geta allar bækur farið upp í bál og brand, áður en menn varir. Það væri heldur þörf á að koma fram með þingsályktunartillögu og skora á stjórnina að hlutast til um það, að skemtibækur væru ekki einusinni lagðar fram á lestrarsal landsbókasafnsins, fyr en þær væru t. d. 5 ára gamlar. Því að það er vitanlegt, að Reykvíkingar, sem eru meir en 1/7 hluti allra landsmanna, kaupa færri bækur en vesalasta sýslan á landinu, og það er alt saman sakir þess, að söfnin eru misbrúkuð. Það eru til styrklaus lestrarfélög, t. d. eitt í Mývatnssveit, sem á miklu betri bækur en öll fjórðungsbókasöfnin. Þeir fara ekki fram á neinn styrk, á kostnað höfundanna. Þeir kaupa bækurnar sjálfir. Enda eiga menn líka að gera það, ef menn vilja lesa bækur, að borga fyrir það, alveg eins og eg verð að borga fyrir neftóbakið mitt, en get ei heimtað af tóbaksfabrikum, að þær sendi mér svo og svo marga bita ókeypis.