22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

9. mál, prentsmiðjur

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg vil leyfa mér að benda háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) á það, að öllum landsmönnum er jafnheimill aðgangur að fjórðungsbókasöfnunum. Jafnvel þó það sé erfiðara fyrir þá, sem fjær búa, hafa þeir samt rétt til þess. Eg vil leggja til, að breyttill. nefndarinnar sé feld, því að það er aðgætandi, að það er tiltölulega lítið gefið út á íslenzku af nytsömum bókum, en söfnunum mundi samt vera lögð sú kvöð á herðar að útvega allar íslenzkar bækur. Afleiðingin yrði sú, að söfnin gætu ekki keypt neitt verulegt af gagnlegum, útlendum bókum, sem menn verða þó að kannast við, að mikil ekla er á, því að fáar eru þær þýddar á íslenzku. Við verðum því að hafa tryggingu fyrir, að söfnin geti náð í þessar bækur, því að annars koma þau ekki að tilætluðum notum, og megum því ekki skerða um of rétt þeirra með því að samþykkja breytingartill.