04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

9. mál, prentsmiðjur

Jón Magnússon:

Eg hygg, að það sé háttv. 2. þm. S -Múl. (J. Ól.), sem misskilur mig. Frv. var alt öðru vísi, þegar það kom hér fyrst. Þá var leitast við að létta af mönnum skatti, en það var felt. Á síðustu þingum hefir bókagerðinni alt af verið íþyngt. Eg hygg nú, að það væri nær að laga þetta á alt annan hátt en hér er farið fram á. Mér dettur ekki í hug að efast um það, að það sé á voru valdi einna, að kveða á um lagaskyldu eða ekki til að senda dönskum bókasöfnum bækur prentaðar hér, en eg hygg, að það væri allskynsamleg leið í stað þeirra fyrirskipana, er nú á að leiða í lög, að senda landsbókasafninu fleiri eintök af prentuðum ritum en nú, og væri þar af einhver ætluð til skifta. Það væri hyggilegri og aðgengilegri vegur, en að hætta alveg fyrirvaralaust að senda þeim bókasöfnum prentuð rit, sem lengi hafa notið þessara hlunninda, alveg fyrirvaralaust. Að við höfum lagarétt til þessa, getur auðvitað enginn maður með fullu ráði deilt um. Það hefir haft þýðingu fyrir Íslendinga, að hafa þessar bækur í Kaupmannahöfn, einkum við háskólabókhlöðuna. Þeir hafa oft verið þar margir og haft mikil þægindi af því, og aðrir hafa notað bækurnar lítið. En mér þykir það leitt, að kippa þessu burt alt í einu, án þess að hafa svo mikið sem minst á það áður við þessi bókasöfn, sem ætíð hafa reynst oss svo vel. Það er ekki kurteisi við aðra þjóð, hvort sem hún er í sambandi við okkur eða ekki, og það er þó til það sem kurteisi heitir, líka meðal þjóðanna. Eg veit nú, að sumir finna enga ástæðu til þess að sýna Dönum hana. Þeir líta svo á, sem þeir hafi þá sérstöðu, að vera fyrir utan þjóðaréttinn, og svo mikið veit eg, að ef þessar bækur hefðu verið sendar til bókasafna á Englandi eða Noregi, þá hefði engum dottið í hug að kippa þessu burt umtals- og fyrirvaralaust. Brtill. álít eg ótæka. Eg sný ekki aftur með það, að eg álít það mjög misráðið, að banna að selja hér íslenzkar bækur, sem prentaðar eru utanlands, nema með því að skattskylda menn á þennan hátt.

Háttv. 2. þm. S.-M. (J. Ól.) talaði um Ameríku, og skal eg láta það liggja á milli hluta, mér er ekki svo kunnugt um það, en athugavert er það, að þar er þrengra um ýmislegt en annarstaðar. Hér nærlendis þekki eg hvergi slíkar hindranir. Eg veit ekki betur, en að oss væri leyfilegt að senda bækur hvert sem við vildum, án þess að verða sektaðir. Eg get ekki skilið það, að þótt þetta væri haft eins og áður, þá þyrfti að skoða það sem skattgjald til annars ríkis, en eftir því sem mér skildist á háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), þá er það meiningin með þessu eins og mörgu öðru, að það á að vera dálítil títuprjónsstunga, og það er óheppilegt, að geta ekki haldið virðingu sinni án þess að vera með þess háttar útbrot.