04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

9. mál, prentsmiðjur

Framsögum. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Mér kemur það mjög kynlega fyrir, að heyra um þessa prjóna. Eru það títuprjónastungur á Dani hvenær sem leiðrétt er eitthvert gamalt ranglæti? Kenna þeir til af því? Hér á að hætta því, að íslenzkir bókaútgefendur séu skyldir til að gefa dönskum bókasöfnum bækur, og það á að stinga Dani. Hvernig ætti það að geta stungið þá? — því þeir eru engum rétti sviftir með þessu — hafa aldrei átt neinn rétt til að fá þessar gjafabækur, og ef mönnum sýnist að Danir séu hrjáðir, þó að þessum ósið sé hætt, þá geta þeir hinir sömu komið með tillögu um, að alþingi veiti fé til þess að kaupa þessar bækur handa Danmörku.

Við 2. umr. þessa máls lét eg það í ljós, að rithöfundar okkar væru ranglega skattaðir með því að skylda þá til að gefa fjórðungsbókasöfnunum bækur sínar. Þar eiga þó samlandar vorir hlut að máli; hvað mætti þá segja um að skylda þá líka til að gefa Dönum mörg eintök af hverri bók? Það er svo langt frá því, að þetta sé títuprjónastingir í Dani, sem eg er þess fullviss, að Dönum er enginn akkur í því, að fátækir bókaútgefendur hér séu að gefa þeim bækur. Þetta er ekki annað en gamalt ranglæti, og þótt menn segi, að núlifandi Danir eigi ekki sök á því, þá eru það þó þeir, sem heimta ávextina af því, sem forfeður þeirra hafa unnið og taka þar með á sig ábyrgðina á ranglætisverkum forfeðra sinna. En hvað sem menn segja um pólitíska títuprjónastingi, þá er ekki ástæða til að líta svo á þetta mál.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) vildi láta senda bækurnar til Kaupmannahafnar til þess að tryggja tilveru þeirra. Eg get ekki séð, að það sé betra að senda þær þangað heldur en eitthvað annað, eða þá að byggja nýja bókhlöðu á öðrum stað hér á landi; en hvað sem um það er, þá breytir það ekki þessum lögum; landið getur þá keypt eins mikið af bókum og það vill og sent þær til London, París, Berlín, Kristjaníu, Stokkhólms o. s. frv., að eins á ekki að skylda höfundana til þess að gefa þær. Það er ranglátt og þess vegna á það ekki að viðgangast.