04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

9. mál, prentsmiðjur

Jóhannes Jóhannesson:

Eg get ekki séð, að frumvarp þetta sé svo vandað sem æskilegt væri, og vil gera nokkrar athugasemdir við það. Eg álít talsverðan galla við frumvarpið ákvæði 2. gr. þar sem ákveðið er, að fjórðungsbókasöfnin skuli ekki fá eintak af því prentaða máli, sem ekki er ætlað til sölu. Ennfremur finst mér það ákvæði í 3. gr. nokkuð hart, að prentsmiðjur skuli hafa skilað hverju riti á næstu póststöð, áður en 3 sólir hafa verið á lofti, frá því er ritið var fullprentað. Eg sé ekki, að það sé svo áríðandi, að fá ritin svo fljótt, að ekki mætti nægja að senda öll í einu, sem komið hefði út á sama ársfjórðungi. Sömuleiðis er sektarákvæðið, 30 kr. fyrir hvert rit, altof hátt. Ef gleymt yrði t. a. m, að senda sýslufundargerð Norður-Múlas., mundu sektir fyrir það nema yfir 100 kr., og brot og refsing stæðu því ekki í réttu hlutfalli hvað við annað. Þá er í sömu gr. ákvæði um svartan stimpil, til þess að stimpla með upptækar bækur. Verði sá stimpill stældur, skulu sömu ákvæði gilda um það og skjalafölsun. Nú er þess að gæta, að til er margskonar skjalafölsun. Í frumv. er ekkert um það getið, undir hverskonar skjalafölsun á að færa þetta brot. Dómari, sem fengi slíkt mál til meðferðar, fengi því enga leiðbeiningu í því, hvernig hann ætti að dæma. Þá er harla einkennilegt ákvæði 4. gr. um 5 skrár, sem prentsmiðjur eiga að senda lögreglustjóra og fá eina til baka með kvittun. Lögreglustjóri á að senda út 10 þesskonar skrár, en hefir að eins 4 og verður því að láta afskrifa 6. Því má hann ekki eins fá 9 skrár? Það virðist nokkuð einkennilegt. Þá er í sömu grein hættulegt ákvæði, þar sem stendur:

»Nú verða vanskil á greiðslum fégjalda eftir lögum þessum, og er þá prentsmiðjan með öllum eigum og áhöldum að forgangsveði fyrir þeim.«

Þetta er stórhættulegt ákvæði, ef það yrði að lögum, og myndi valda því, að prentsmiðjueigendur mistu alt lánstraust, með öðrum orðum, enginn banki þorir að lána prentsmiðju fé, vegna þess, að sektirnar og fébætur geta orðið svo háar, að prentsmiðjurnar geti ekki staðið straum af þeim, og þeir sem eiga inni hjá prentsmiðjum, munu óðar segja þeim upp lánunum.

Í 6. gr. er ákvæði um það, að engar bækur sé leyfilegt að selja út, nema landsbókasafnið hafi fengið 1 eintak af þeim. Hegning fyrir brot á þessu ákvæði á í samræmi við ákvæði 3. gr. að vera 30 kr. fyrir hverja örk og prentsmiðjueigendur eiga að sæta ábyrgð fyrir þesskonar brot. — En sá galli er á 6. gr. að hún á líka að gilda um íslenzkar bækur, sem gefnar eru út erlendis. En hver á þá að bera ábyrgðina? Það getur enginn hérlendur maður verið. Prentsmiðjueigandinn er ytra, og útlendir prentsmiðjueigendur eru ekki vanir að hafa hér umboðsmann, þótt bóksalar geti haft hann. Íslenzk lög geta ekki náð til þessa manns, svo að ákvæðið virðist vera tóm endileysa.

Yfirleitt virðist frágangurinn á frumvarpinu vera svo slæmur, að deildin getur ekki látið sér sæma að senda það svona frá sér. Eg vil því skjóta því til háttv. flutningsmanna að taka það enn þá einu sinni út af dagskrá. Bezt væri líklega að skipa nýja nefnd í málið.