29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

153. mál, prentsmiðjur

Bjarni Jónsson:

Þótt það sé gömul venja, að Íslendingar séu skyldir til að gefa dönskum bókasöfnum íslenzkar bækur, þá skoða eg órétt altaf órétt, hvað gamall sem hann er. Eg skil ekki, að það sé móðgun við Dani að hætta þessu, og eg hygg, að þeir líti ekki svo á það. Enda þótt gömul tilskipun sé til um þetta, þarf slíkt ekki að binda menn nú. Háttv. flutnm. (J.Þ.) hefir sagt, að það væri alls ekki meiningin að móðga Dani, heldur það eitt, að rangt væri, að gefa Dönum íslenzkar bækur. Það þarf ekki að leita samkomulags um slíkt. Eigum við að spyrja um, hvort Danir vilji semja lög um að gefa Íslendingum danskar bækur? Tillagan frá 1907 var að eins ósk til stjórnarinnar. Það þurfa ekki að vera prentsmiðjur, sem gefa bækur. Landið getur gert það sjálft. Prentsmiðjur hér eru alls ekki skyldar til þess, né bókaútgefendur. Eg hefi ekki fundið neina skyldu hjá mér til þess, að gefa dönskum bókasöfnum eintök af bókum þeim, sem eg hefi gefið út. Það hefir verið lesið upp bréf um, að Danir ætli að gefa okkur bækur. Þetta er víst höfðinglega gert.

Danir hefðu átt að gefa út lög um þetta. En danska stjórnin hefir ekki treyst sér til að fara annan veg en sníkjuleiðina, til þess að fá Íslendingum danskar bækur. Enda þótt bóksalafélagið danska kippi að sér hendinni með að láta oss í té danskar bækur, væri enginn skaði í því. Það er meira áríðandi fyrir oss, að fá aðrar bækur en danskar. Sumar þeirra eru góðar, en sumar aftur á móti eru hreinasta rusl. Vér þurfum fremur að eignast aðrar bækur en danskar. Eg skelf ekki í hjarta mínu, þótt vér fáum ekki danskt rómanarusl. Vér viljum ekki, og eigum ekki, að hafa nein skifti nema að Danir gefi út lög, sem skuldbinda þá til þess, að láta oss í té bækur. En vér gætum eins vel keypt bækur af þeim. Það er algerlega rangt, að skylda prentsmiðjur og einstaka menn til þess að gefa Dönum bækur. Það er engin skylda fyrir oss, að gefa Dönum bækur, þótt vér fáum loforð bóksalafélagsins danska um að fá eitthvað af bókum ókeypis.