29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

153. mál, prentsmiðjur

Jón Þorkelsson:

Mér þykir kveða við tvenns konar hljóð hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), nú frá því, sem fyrri hér í vetur, þegar hann vildi sníða burtu þennan botnlanga, svo sem hann þá nefndi lögskyldu bókaútlátin til danskra bókasafna. Hér er ekki verið að tala um skaða eða ábata, heldur um það, hvort vér skulum skyldir að lögum til að gefa Dönum bækur. Eg hafði ekki, framar en háttv. þm., tekið eftir þingsályktuninni frá 1907. Þar er farið fram á, að stjórnin hlutist til um, að vér fáum bækur gefins, að Danir láti oss fá bækur af náð og miskunn, en vér jafnframt skyldum halda áfram að vera skattskyldir þeim um bækur að lögum. Þessi þingsályktun frá 1907 er því bygð á gömlu skilningsleysi og vöntun á sómatilfinningu, enda var hún borin hér fram af dönskum embættismanni, sem þá var á þingi. Vér eigum að láta Dönum bækur í té á sama hátt og þeir okkur.

Hv. ráðh. (Kr. J.) sagði að þetta væri gamall skattur, og að Dönum mundi finnast það býsna hart, ef því væri kipt burtu. En má spyrja: Höfum vér ekki nógu lengi látið af hendi þennan skylduskatt? Er þörf á honum lengur? Hvað eigum vér að vera lengi bónbjargamenn fyrir Dönum? Ef vér hefðum farið öðru vísi að, hefðu Danir boðið oss skifti á bókum eftir samkomulagi. Þessi þingsályktunin frá 1907 væri því betur ógerð en gerð. Í henni höfum vér farið illa og óviturlega að ráði voru. Hv. ráðh. (Kr. J.) sagði, að þótt tillaga mín yrði samþykt, þá yrði hún ekki til neins gagns, því að Danir ætluðu nú að láta oss fá bækur að gjöf gegn lögskyldu vorri. Jú, þetta fer alt að líkindum. Þegar þeir sjá, að vér ætlum að taka af þeim þessi lögskyldu bókaútlát af vorri hendi, hlaupa þeir upp til handa og fóta, svo að það skuli ekki verða. Vér höfum komið fram sem betlarar gagnvart Dönum, með því, að vér höfum beðið þá að gefa, um leið og vér lögskyldum oss til að láta.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði, að vér ættum ekki að útiloka bókasöfnin frá því að fá danskar bækur. Er það þá að útiloka oss frá því, þó að vér viljum, að skift sé á bókum að samkomulagi? Vilja Danir þá alls ekki hafa skifti við oss, nema á þann hátt, að mega beita oss ójöfnuði. Það gæti annars legið nærri, ef út í það færi, að álíta að Danir séu eins færir um að kaupa íslenzkar bækur, eins og Íslendingar að kaupa danskar.

Þá vil eg snúa mér að hræðslunni við það, að Danir muni ganga frá þessu tilboði, sem ráðherra gat um, ef vér afnemum lagaskylduna af vorri hendi. Það er þá að minni hyggju einmitt hvöt fyrir dönsku bókasöfnin að láta oss í té bækur í skiftum, ef þau vita, að þau geti ekki lengur fengið bækur vorar á lögskyldan hátt, og ekki á annan veg en með kaupi eða í skiftum. Þetta verður mönnum að skiljast.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) tók réttilega fram, að árangurinn af tillögunni frá 1907 hefði átt, ef jafnrétti skyldi vera, að vera sá, að Danir hefðu gefið út lög, sem skuldbundu þá til þess, að láta oss fá sínar bækur. Þetta er þó engan veginn tilætlunin með tillögu minni, heldur einungis, að alt sé laust og bundið. Eg veit satt að segja ekki, hvar þessi margumtalaði »bræðrahugur« og »jafnrétti þegnanna« á að koma fram, ef hann á ekki að koma fram í slíkum efnum sem þessu. Eg vil brýna það fyrir háttv. deild, að kjarni máls þessa er sá, að vér viljum hafa jöfn skifti, en engan lögskylduskatt af vorri hendi. Tillagan frá 1907 fer í öfuga átt og lýsir skammsýni, skilningsleysi og lítilþægni, sem er til vanza.