29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

153. mál, prentsmiðjur

Ráðherrann (Kr. J.):

Mál það, sem hér hefir verið til umræðu, hefir nú verið nægilega útlistað frá ýmsum hliðum, og ítarlega tekið fram, hvernig því víkur við. Það er því augljóst, eða á að minsta kosti að vera það, hvernig málið horfir við frá Dana hálfu. Ef tillagan yrði samþykt, eins og hún liggur nú fyrir, þá mættu Danir með réttu telja sig hafa verið gabbaða af þinginu. En telur þingið það sæma, að koma fram á svofeldan hátt? Telur þingið sér sæma, að hlaupa frá þeirri skuldbindingu, sem segja má, að það hafi undirgengist 1907? Framkoma þingsins 1907 var svo vaxin, að það tók á sig ákveðnar skuldbindingar í notum hlunninda frá annari hálfu, sem nú standa til boða. Ætlar þá þingið að hlaupast frá sínum skuldbindingum?

Ef hér væri um almenn viðskifti að ræða, þá væri málið alveg ljóst og þá vissu þingmenn, um hvað væri verið að véla, og eg vona, að það séu svo margir hér í deildinni, er sjái glögglega, hvað leyfilegt sé og sæmilegt í þessum viðskiftum, að eigi þurfi að óttast það, að tillagan verði samþykt, einkum eftir að deildin hefir fengið að heyra bréf Appels ráðherra. Og þó 13 eða 14 þingmenn í neðri deild leggi fyrir mig að gera eitthvað, þá er það eigi skipun frá alþingi eða meiri hluta þess, og mun mér því eigi verða talið skylt að hlaupa eftir því, einkum ef skipunin er svo órífleg, að framkvæmd hennar eigi getur samrýmst sæmd þingsins. En eg vona, að deildin geri engar þær fyrirskipanir, sem fara í bág við það, sem er sæmilegt.