29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

153. mál, prentsmiðjur

Hannes Hafstein:

Eg skal ekki vera langorður um þetta mál. En af því eg hefi verið viðriðinn framkvæmd þingsályktunartillögunnar frá 1907, þá vildi eg leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við ræðu háttv. flutningsm. (J. Þ.).

Mér skilst það sé mergurinn málsins hjá sumum, að óánægja sé með það, hvernig tillagan frá 1907 hefir verið framkvæmd, en eg hygg, að þeir menn hafi ekki gert sér það ómak, að kynna sér þingsályktunartillöguna nægilega. Það var beint tekið fram í umræðunum á þingi 1907, að við vildum ekki hafa allar bækur, sem út kæmu, heldur að eins úrval af þeim. Ef háttv. forseti leyfir, vil eg leyfa mér að lesa tillöguna upp. Hún hljóðar þannig:

»Alþingi skorar á stjórnina, að leita samninga við stjórn Dana um, að hún hlutist til um, að landsbókasafninu verði látið ókeypis í té 1 eintak af helztu bókum og tímaritum, sem prentuð eru árlega í Danmörku, til uppbótar fyrir þau 3 eintök af öllum íslenzkum bókum og blöðum o. s. frv.«.

Flutningsmaður tillögunnar í Ed., þar sem tillagan kom fyrst fram, lagði mikla áherzlu á það, að við hefðum alls ekki tök á og ekkert gagn af að fá alt, sem út kæmi, heldur væri æskilegt, að landsbókasafnið fengi að velja, það sem það óskaði. Ef menn vilja lesa þingtíðindin, munu menn sjá, að þessu voru allir samþykkir. Hér í deildinni mælti biskup Þórhallur Bjarnarson fastlega með þessu og var það samþykt í einu hljóði. Eg skrifaði því næst kenslumálaráðherranum, Enevold Sörensen og talaði einnig um þetta við hann og hann gerði sér mikið far um að koma þessu í framkvæmd. Ef við hefðum viljað fá alt ruslið, þá mundi hann hafa getað komið með lagaákvæði um þetta, en af því við vildum ekki hafa nema úrval, þá var þetta miklu erfiðara viðfangs og lítt mögulegt að framkvæma það, nema með samkomulagi við hlutaðeigendur. Kenslumálaráðherrann lofaði mér að reyna þá leið, að snúa sér til bóksalafélagsins. Þetta félag er alt öðru vísi samband en bóksalafélagið hér hjá okkur. Málaleitanirnar hafa tekið tíma, en nú eru þær komnar í kring fyrir áhuga og aðstoð núverandi kenslumálaráðherra, herra Appel. Það væri harla óviðurkvæmilegt að svara þessari tilhliðrun, sem gerð er samkvæmt óskum alþingis sjálfs, með því að kippa burt þeim bókum, sem þetta á að koma í staðinn fyrir. (Jón Þorkelsson: »Ósatt«). Það eru fleiri læsir en háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og þegar hann nú segir, að eg fari með ósatt mál, þá eru það vísvitandi ósannindi hjá þingmanninum.

Sami háttv. þm. hélt því fram, að bókasendingarnar héðan til bókasafnanna í Khöfn væri gömul þvingunarlög frá einveldistímanum; það er sömuleiðis ósatt. Þetta er fyrirskipað í prentsmiðjulögunum frá 1886 og okkar eigin löggjafarvald hefir samið þau lög. En það er ekkert nýtt, þótt þessi háttv. þm. sé að burðast hér með vanhugsaðar tillögur, sér og þinginu til lítils sóma. Hann hefir ávalt verið ófeiminn og óprúttinn í því að tala með kredduríg og sérvizkuþótta um mál, sem hann annað hvort vill ekki vita eða veit ekki rétt deili á, eftir því sem honum býður við að horfa. Og hann virðist ekki á bakið dottinn enn í því að koma fram með fáránlegar tillögur.

Eg skal ekki fara út í fleiri atriði málsins; eg er samþykkur því, sem hv. þm. Vestm. (J. M.) og hv. 1. þm. S.-M. (J. J.) hafa sagt um þetta mál, svo eg þarf ekki að endurtaka það.