29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

153. mál, prentsmiðjur

Björn Jónsson:

Eg hefi ekki enn lagt neitt til þessa máls, enda býst eg við, að mín orð séu ekki að miklu höfð hér á þinginu nú orðið. Þó vil eg láta þá skoðun mína í ljósi, að mér finst ekki ráðlegt að samþykkja það mál, sem hér er fram flutt. Það mundi áreiðanlega ekki vera skoðað öðru vísi en eins og spark til Dana.

Eg hefi ekki verið við þetta mál riðinn. Það var fyrirrennari minn, sem hafði framkvæmdirnar á hendi í því. Þó átti eg tal við kenslumálaráðherrann, og kvaðst hann þá vera að berjast við að koma þessu í framkvæmd. Mér finst því, að réttast væri að láta þetta mál bíða næsta þings og sjá hverjar framkvæmdir yrðu á þessu fyrirheiti, þó það væri ekki af öðru en af því, að vér vildum taka það tillit til þessa manns, sem svo mikið hefir haft fyrir þessu máli. Væri þá tími til að hugsa um, hvað gera skyldi.