06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

33. mál, borgarstjórakosning

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Frumv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt eftir einróma óskum, sem komu fram á þingmálafundunum hér í vetur, að borgarstjóri skuli eftirleiðis vera kosinn af öllum þeim, sem atkvæðisrétt hafa til bæjarstjórnarkosninga. Eg hefi af ásettu ráði ekki farið út í það í frumvarpi þessu, að setja að öðru leyti nánari reglur um kosninguna eða embættisafstöðu borgarstjórans að öðru leyti. Ákvæði um það efni eru ónóg og ófullkomin í löggjöfinni, svo sem um það, hvort hann hafi atkvæðisrétt á bæjarstjórnarfundum og hvort hann ætti ekki eiginlega að vera í fyrirsvari bæjarstjórnarinnar. Það er þannig nú, að ef maður þarf að leita réttar síns gegn bæjarstjórninni, þá verður hann að stefna öllum, sem í henni eru. Að öðru leyti er ekki ástæða til þess að fjölyrða nú að sinni um þetta frekar. Eg vona að nefnd verði kosin í málið, sem svo getur borið sig saman við bæjarstjórnina og borgarstjórann. En þess má geta, að þegar farið er að aðgæta löggjöf bæjarins, þá reynist hún nú orðin öll í sneplum og skóbótum. Það þyrfti að koma henni í eina heild. En til þess þarf afarmikinn undirbúning og tíma, sem borgarstjóri og bæjarstjórn verða til að leggja. Þau lög, sem bænum er stjórnað eftir nú, eru frá 20. apríl 1872, úrelt og margaukin og vönuð.

Að lokum vil eg stinga upp á 5 manna nefnd.