26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

75. mál, stjórnarskrármálið

Sigurður Hjörleifsson:

Eg ætla að eins að gera stutta athugasemd út af því atriði í br.till. okkar, að stjórnarskrárfrv. sé því að eins borið undir alþjóða atkv. að stjórnin sé því meðmælt. Þetta ákvæði álít eg réttlátt og nauðsynlegt. Stjórnin hefir ábyrgð á þeim breytingum, sem verið er að gera og þá er eins gott, að hún taki á sig þá ábyrgð strax. Ráðherra verður að minsta kosti að taka á sig ábyrgðina þegar hann ber frumvarpið upp fyrir konungi, og úr því að hann verður einhverntíma að gera það, hvort sem er, þá er bezt að hann geri það frá upphafi og hafi ábyrgð á málinu, ekki einungis gagnvart konungi, heldur líka gagnvart þjóðinni. En þá verður hann líka að ráða því, hvort málinu er haldið áfram eða ekki.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. kgkj. þm. tók fram um hjúin, þá vil eg leyfa mér að geta þess, að þó samþykt væri, að hjúin gætu fengið kosningarrétt með einföldum lögum, þá helzt samt kosningarákvæði stjórnskipunarlaganna að öllu leyti nema þessu eina. Það má til dæmis ekki færa til aldurstakmarkið, hvorki lækka það né hækka.

Ef menn viðurkenna, að það sé réttmætt, að hjúin fái einhvern tíma kosningarrétt, þá virðist ástæða til að leyfa að veita megi hann með lögum.