06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

37. mál, breyting á fátækralögum

Pétur Jónsson:

Eg er framsm. samdóma um, að það þurfi allrar varúðar við, þegar breyta á lögum eins og fátækralögunum. Brtill. mín á þgskj. 298 gengur út á það, að hægt sé að veita mönnum styrk af sveit, án þess að hann verði talinn fátækrastyrkur, ef honum samkvæmt sveitarfundarsamþykt er varið til þess að leita manni heilsubótar að læknisráði, eða til fæðiskostnaðar barns í skóla. Ef háttv. deild finst mikið athugavert við þetta, þá er auðvitað ekki vert að halda því til streitu. Háttv. framsm. (J. M.) hefir lýst því yfir, að nefndin taki vel í seinni hluta till., um fæðiskostnað barns í skóla. Nú til þess, að eiga ekki þann hluta tillögunnar á hættu við atkvæðagreiðslu nú, vegna hins hlutans, og ekki er hægt að greiða atkv. um hvað fyrir sig í þetta sinn, tek eg allar tillögurnar aftur, og bý málið undir til 3. umr.