10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

37. mál, breyting á fátækralögum

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Það eru að eins örfá orð um 3. lið. Hann er fram kominn fyrir tilmæli mín og hv. þm. Snæf. (S. G.). Eg er samdóma hv. þm. Vestm. (J. M.) í því, að of mikið sé gert að því, að breyta nýjum lögum, og eg tel þá aðferð eigi góða, og vil fúslega styðja hann í því, að hindra það eftir megni. En hér er ekki því máli að gegna. Við hefðum ekki komið með þessa till., ef aðrar hefðu ekki verið á undan gengnar, sem fóru fram á breytingu. Þegar þessi lög voru samin, áleit eg það ekki sanngjarnt, að menn mistu borgaraleg réttindi sín fyrir það, að þeir gætu ekki framfært mjög mörg börn. Eg var ekki mikið við málið riðinn á þinginu og sat ekki í nefndinni, sem um það fjallaði. Eg hreyfði við sumu í umræðunum, en varð ekki úr, að eg kæmi með beina tillögu, eins og oft vill verða, þegar maður hefir í mörgum öðrum málum að snúast. En nú þegar átti að breyta lögunum hvort sem var, var tími til þess að hreyfa málinu á ný. Eg lít svo á, að það megi ekki vera tilgangur löggjafarvaldsins að láta menn verða fyrir réttindamissi, vegna þess eins, að þeir eiga mörg börn, ef þeir annars eru nýtir borgarar. Og þann mann, sem á mörg börn, tel eg með betri mönnum þjóðfélagsins. Það má ekki láta þá gjalda þess, að þeir geta ekki séð fyrir þeim öllum. Mér finst talan 6 nokkuð há — hefði helzt kosið, að takmörkuð væru 4 eða 5, en hitt varð nú að samkomulagi. Brtill. er alveg réttmæt, þótt hún fari eigi svo langt, sem eg hefði kosið. Eins og eg sagði fyrst, komum við að eins með hana, af því að lögunum átti að breyta hvort sem var og eg vona að háttv. deild samþykki hana.