12.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

37. mál, breyting á fátækralögum

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg finn, að háttv. þingdeildarmönnum, sem enn hafa talað, hefir ekki skilist það, sem meðal annars er athugavert við tillögur þeirra frá mínu sjónarmiði, en það er það, að þær koma ekki heim við lögin sjálf sem í gildi eru.

Viðvíkjandi breyt.till. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) er það að segja, að hún nær ekki nógu langt. Með henni er ekkert sagt um það, hvort framfærslusveitin eða dvalarsveitin eigi kröfu til endurgjalds fyrir flutning þurfalingsins á sjúkrahús eða hæli. Þá væri nær, ef það er meiningin, að hvorug sveitin eigi endurgjaldsrétt, að hafa tillöguna svo, að styrkur fyrir læknishjálp svifti menn aldrei réttinum, því að jafn verðugur er maðurinn, hvort sem hann fær sjúkdóminn á ferðalagi, þar sem hann dvelur, eða í framfærslusveit sinni. Í öðru lagi þyrfti að breyta þeim ákvæðum, sem standa í sambandi við þetta, bæði í lögunum um geðveikrahæli og almenna sjúkrahússvist. Því að ef maðurinn missir ekki réttinn í þessum tilfellum, fellur skylda landsjóðs burtu, því að þá er hann ekki lengur þurfamaður, sbr. 73. gr. fátækralaganna.

3. liður tillögunnar á þgskj. 601 getur þar á móti staðist; það er almenn regla og rekur sig ekki á önnur ákvæði.

En 1. liður tillögunnar fær alls ekki staðist; hann er hvorki hrár né soðinn. Eg býst ekki við, að menn séu svo hugsunarlausir, að menn samþykki þann lið.