18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

37. mál, breyting á fátækralögum

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg hefi ekkert að segja um þessa breyttill. á þgskj. 601 framar en eg hefi sagt hér áður. Mér er óskiljanlegt, að hinn háttv. þm. Sfjk.

(B. Þ.) skuli halda fram þeim skilningi, sem hann gerir nú, því fremur sem eg þekki það að fornu fari, að hann getur haft skýran skilning á lögum. Lagaákvæði geta stundum skilist á fleiri vegu, en þessi breyt.till. getur ekki skilist nema á einn veg og get eg ekki hugsað mér, að nokkur dómstóll geti lagt í hana annan skilning en þann, er eg hefi haldið fram. En eg sagði þetta sem athugasemd. Eg áleit þetta kost á breytingartillögunni. Ákvæðið verður þannig miklu víðtækara en flutningsmaður auðsjáanlega ætlaðist til og þannig fæst það, sem hlýtur þó að hafa vakað fyrir honum sem aðalregla, að styrkur, sem sveitarfélagið veitir sjúkum mönnum, skuli ekki valda réttindamissi. Eins og greinin er orðuð, þá er hún miklu betri og skynsamlegri en hún var meint.

Annars skal eg ekki tala frekar um þetta, en eg hefi gert áður. Eg skal þó geta þess, að nefndin er að sjálfsögðu á móti tillögu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), því með þeirri tillögu er numið burt það, sem nefndin hefir bætt við frumv. og það af þeim ástæðum, sem teknar eru fram í nefndarálitinu.