08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

58. mál, sjómannavátrygging

Magnús Blöndahl:

Eg get verið stuttorður, því að háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) hefir tekið fram hið helzta, sem eg ætlaði að segja. Eg get ekki séð, að ástæða sé til að færa tillagið svo niður, sem farið er fram á. Lögin hafa að eins staðið stutta stund, og þótt nokkur óánægja hafi verið með þau á stöku stað, þá er mér kunnugt, að hún hefir ekki verið almenn. Enda hafa sjómenn enga ástæðu til óánægju, ef tilgangur laganna frá 1909 er réttilega athugaður. Þvert á móti mættu þeir óska — og það munu margir þeirra gera — að tillögin yrðu hækkuð, svo að þeim kæmi sjóðurinn að betri notum.

Eg vil leyfa mér að beina þeirri spurning til háttv. flutnm., hvort leitað hafi verið álits sjóðsstjórnarinnar um það, hvort sjóðurinn þoli slíka lækkun? Það er nauðsynlegt að vita það, og yfir höfuð hefðu menn átt að afla sér greinilegra upplýsinga um alt ásigkomulag sjóðsins, áður en lagt var á stað með þetta frumv.

Eg mun ekki verða á móti, að nefnd verði skipuð í málið, þótt eg hins vegar ekki geti heitið frumv. stuðningi mínum.