06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

58. mál, sjómannavátrygging

Sigurður Gunnarsson:

Eg hafði leyft mér snemma á þessu þingi að flytja þetta frumv. ásamt með 2. þm. Árn. (S. S.) og þm. A.-Sk. (Þ. J.). Eg hafði fullkomna ástæðu til að bera fram frumv. sakir umkvartana sjómanna undir Jökli yfir lögunum frá 1909 um vátrygging sjómanna. Þykja þeim lögin ósanngjörn, enda er málum oft flýtt á þingi án nægilegrar athugunar, og virðist mér það hafa komið tilfinnanlega fram á þessu frumv. Kjósendur mínir vilja heldur láta nema lögin úr gildi, ef þau verða ekki endurbætt því til sönnunar skal eg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp skjal, undirritað af fjölda sjómanna bæði í Ólafsvík og á Hellissandi. Þar segir:

»Það sem vér finnum lögum þessum til foráttu, er, að iðgjaldið er að voru áliti helmingi of hátt, samanborið við það, sem sjóðurinn borgar, ef slys ber að höndum, og sá, sem vátrygður er, fær, ef hann deyr á landi, ekkert úr lífsábyrgðarsjóðnum« o. s. frv.

Það kemur oft fyrir, þar sem brimasamt er, að sjómenn drukna í lendingum, aðrir komast að vísu lífs af, en deyja eftir einn sólarhring eða svo. Þessir menn, eða eftirkomendur þeirra fá ekkert. Þessu þarf að breyta. Sömuleiðis kemur oft fyrir, að bómu eða rá slær á menn, svo að þeir hljóta bana af. Þeirra eftirkomendur fá ekki heldur neitt. Skal eg í þessu sambandi leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp kafla úr skjali frá sjómönnum í veiðistöðunum Keflavík og Sandi. Þar segir:

»Hér í veiðistöðunum, Sandi og Keflavík, munu það vera 20 menn, sem druknað hafa á síðastliðnum 20 árum, m. ö. o.: 1 maður á ári að meðaltali. Árleg iðgjöld mun óhætt að ætla 1000—1100 kr. héðan. Á 20 árum borgum við því 20—22 þús. kr. en fáum aftur 8000 kr. Ekki virðist ástæða til að ímynda sér að slysförum, fari fjölgandi með vaxandi menningu og varfærni í sjóferðum. Að þessu athuguðu hljóta allir að sjá, að iðgjaldið er mikið of hátt. Í öðru lagi er þetta umrædda iðgjald svo þungur skattur, ofan á alla hina mörgu skatta til almennings þarfa, að við teljum okkur ekki rísa undir honum. Reynslan sýnir oss, að sjósóknir hér eru afar stopular, og getum vér fullyrt, að ekki er komið á sjó hér oftar en einu sinni til tvisvar í viku á vetrinum að meðaltali. Fyrir það skal hver háseti greiða 18 aura um vikuna, hver bátseigandi ? hluta móti bátshöfninni. Nú er formaðurinn, sem venjulega telst eigandi bátsins, bláfátækur ómagamaður, jafnvel dæmi fyrir hendi, að hann þiggi sveitarstyrk. Hann skal greiða þetta gjald, hvernig sem ástæðurnar eru, og þótt vertíðin gefi lítið meira af sér en gjaldið sjálft, t. d. síðastliðinn vetur var róðið hér 6 róðrar frá 1. febrúar til 1. apríl, og fiskiríið mjög lítið«.

Þeir enda orð sín með því, eins og eg tók fram áðan, að betra sé að nema lögin alveg úr gildi, heldur en að breyta þeim ekki á þann veg, sem þeir greina og frumv. gerir ráð fyrir. Ennfremur er fundið að því, að orðatiltæki séu ónákvæm, t. d. má deila um það, hvað orðið vertíð þýði, en í frumv. okkar er því slegið föstu, að það skuli þýða sá tími, sem hver sjómaður er lögskráður til í hvert sinn.

Frumv. gerir ráð fyrir að færa iðgjaldið niður, og hygg eg, að það sé óhætt, hvað sem stjórn vátryggingarfélagsins segir, hún getur ekki staðhæft að sjóðurinn, með hjálp landssjóðs, þoli ekki niðurfærslu iðgjaldsins, en iðgjaldið eins og það er, er afarþungur skattur á fjölda fátækra manna, er flestir njóta aldrei neins úr sjóðnum, né þeirra niðjar.

Að öllu þessu athuguðu, vona eg að þingd. flani ekki að því að fella frumv.