19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

58. mál, sjómannavátrygging

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Það hefir ekki verið kallaður saman fundur í nefndinni til að ræða þær brtill., sem fram hafa komið, en þrátt fyrir það þykist eg geta mælt það fyrir munn meiri hluta nefndarinnar, að hann sé mótfallinn þeim öllum. Aðaltilgangur frv. var að lækka iðgjöldin; það fer fram á, að þau verði lækkuð úr 24 aurum á viku niður í 10 aura.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hefir komið með brtill. um að lækka gjaldið um helming, úr 24 aurum niður í 12 aur.

Loks hefir hv. þm. N. Ísf. (Sk. Th.) lagt til að færa gjaldið niður um ¼ úr 24 aur. niður í 15+3 a., eða með öðrum orðum, að hver sjómaður greiði 15 aur. um hverja viku, sem hann er lögskráður og útgerðarmaður 3 aura vikulega fyrir hvern skipverja.

Allar þessar brtill. miða að því að eyðileggja sjóðinn eða girða fyrir það, að þessi nytsemdarstofnun komi að nokkrum verulegum notum.

Eg skal svo ekki fara nánara út í þessar brtill., fyr en flutningsm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim. En það er fyrirsjáanlegt, að ef þessar brtill. verða samþyktar, verður afleiðingin sú, sem eg hefi bent á.

Í sambandi við það, vil eg minnast á hvernig hagur sjóðsins hefir staðið síðastliðið ár. Þá druknuðu vátrygðir 52 menn og kostar það sjóðinn 20800 kr., en tekjur hans í greiddum iðgjöldum voru að eins 13918 kr. Tekjuhalli því 6882 kr. Væri nú hætt að vátryggja, og sjóðurinn ætti að greiða hinar áföllnu vátryggingarupphæðir, ætti hann ekki nærri því til fyrir því og yrði þá landssjóður að hlaupa undir bagga og láta af hendi í það minsta 10—20 þúsund kr. Auðvitað er ekki hægt að segja um þetta nákvæmlega, af því að yfirstandandi ár er enn ekki komið til sögunnar, hvorki að því, er tekjur eða gjöld snertir. En við síðustu árslok voru í sjóði rúm 11 þús. kr., en áhvílandi vátryggingargjöld voru þá tæp 30 þúsund kr., sem sjóðnum er skylt að greiða. Af þessu sést, að sjóðurinn verður á ári hverju að nota þau iðgjöld, sem þá koma inn til greiðslu á eldri vátryggingargjöldum og getur hann á þann hátt komist af, en þó því að eins, að hann fái ekki stór mannskaðaár, að minsta kosti eigi í bráð. Þótt nú landssjóður eigi samkvæmt lögum sjóðsins að leggja fram 15 þús. kr., þá er ekki meiningin að grípa til þess fjár nema brýn nauðsyn beri til. Og þegar nú sjóðurinn vart fær risið undir útgjöldunum með þeim iðgjöldum, sem eru, þá er það bersýnilegt, að hverju það stefnir að lækka iðgjöldin. Þeim, sem nota sjóðinn, mundi því síður en svo vera kært að þessar brtill. næðu fram að ganga.

Skal eg svo ekki að þessu sinni fara lengra út í málið, enda tel eg víst, að bæði flutningsm. frumv. og þeir háttv. þingm., sem flytja breytingartillögur, biðji um orðið og gefst mér þá kostur á að heyra, mæli eitthvað sérstakt með breytingu á lögunum.