19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

58. mál, sjómannavátrygging

Framsögum. minni hl. (Sigurður Sigurðsson):

Eg skal geta þess, út af ummælum framsögum. meiri hlutans (St. St.), að eg hugði, að það hefði enga þýðingu að kalla saman fund, þar sem meiri hluti nefndarinnar hafði lýst yfir því, að hann væri mótfallinn breyt.till mínum á þgskj. 301.

Þær miða allar að því, að bæta úr þeim göllum, sem nefndinni þóttu vera á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til, að iðgjaldið sé fært úr 10 aurum upp í 12 aura. Í öðru lagi eru skýrð orðatiltæki frumv., sem vafi getur leikið á, eins og orðið »vertíð«. Það getur verið mjög mismunandi á ýmsum stöðum og héruðum, bæði hvað vertíðir eru langar og hvað þær eru margar. En nú legg eg það til, að »vertíð« sé sá tími, sem sjómaður er ráðinn í skiprúm í hvert sinn. Venjulega er hver sjómaður ráðinn alla vertíðina, hvort sem hún er stutt eða löng.

Ákvæði 2. greinar frv., um lögskráning háseta á róðrarbátum, hefi eg lagt til að fella burt, vegna þess að mér hefir verið bent á, að hásetar séu ekki lögskráðir á báta, heldur sendi formaður skýrslu um tölu þeirra.

Loks hefi eg lagt til, að vátryggingarféð sé einnig greitt eftirkomendum þeirra manna, sem deyja af slysförum, er orsakast af atvinnurekstrinum á útveginum.

Eftir núgildandi lögum er vafasamt, hvort eftirkomendur þeirra manna, sem deyja af slysum við atvinnureksturinn, t. d. á meðan þeir flytja fisk úr skipum í land, geti fengið styrkinn.

Eftir því sem nú var sagt, vona eg, að menn sjái, að breyt.till. mínar miða að því, að bæta frumv.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir komið með breyt.till. á þgskj. 547, sem ganga í þá átt, að færa frumv. nær núgildandi lögum, og eru þannig aðgengilegri fyrir þá, sem eru á móti frv. Eg þykist vita, að háttv. þm. N.-Ísf. muni gera grein fyrir breyt.till. sínum, og vænti eg þess, að háttv. þingdeild samþykki þær, ef hún aðhyllist ekki mínar tillögur.

Frá mínu sjónarmiði er bót í allri lækkun á iðgjöldunum. Eg skal ekki bera brigður á það, sem háttv. framsögum. meiri hl. (St. St.) sagði, að hagur sjóðsins væri ekki góður. En brt.till. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fara svo skamt, að það getur ekki munað miklu fyrir sjóðinn. En einstöku menn getur munað mikið um það. Eins og skjöl, sem lögð hafa verið fyrir þingið, bera með sér, eru sjómenn mjög óánægðir með lögin. Það eru þeir, sem bera þetta gjald, og finna bezt hvar skórinn kreppir. Í verstöðunum í Árnessýslu, þar sem óánægjan út af þessu er einna ríkust, hafa menn þótst geta reiknað út eftir reynslu undanfarinna ára um slys, sem þar hafa orðið, að það væri nóg að hafa iðgjaldið 10—12 aura. Þessi óánægja þeirra er líka sprottin af því, að þeir hafa sjálfir sjóði, sem miða að hinu sama, og er eðlilegt, að þeim þyki ilt að þurfa að greiða tvöfalt gjald.