21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

58. mál, sjómannavátrygging

Skúli Thoroddsen:

Eg hefi leyft mér að koma með breyt.till. við þetta frumvarp samkvæmt óskum sjómanna í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þótt þar sé óánægja út af því, hve gjaldið er hátt, þá er það ekki aðalatriðið, heldur hitt, að í lögunum 30. júlí 1909 eru ýms ákvæði, er menn geta ekki felt sig við, einkum ákvæðið um það, að sjómenn geti ekki fengið styrk, eða eftirkomendur þeirra, sem ekki hafa að minsta kosti stundað sjó eina vertíð eða lengur. Það kemur oft fyrir, að menn stunda sjó skemur, og því hefi eg komið með brt. um það, að skylt sé að vátryggja líf sjómanna, sem stunda sjó í viku eða lengur. Ennfremur stendur í lögunum frá 1909, að bátarnir þurfi að vera fjórrónir. Engu síður er ástæða til að tryggja tvíróna báta, sem mjög tíðkast á vorin um Ísafjarðardjúp og máske víðar, og því hefi eg komið með brt.till. um það. Hjá útgerðarmönnum hefir gjaldið einnig þótt hátt, og hefi eg lagt til að lækka það um helming. Óánægja hefir líka verið um það, hve lágt innheimtugjald hreppstjórar fá. Eg hefi því lagt til að hækka það upp í 4% og að skrásetningarstjóri fái ennfremur 2% fyrir að koma gjaldinu áleiðis.

Gagnvart ræðu háttv. framsögum. meiri hlutans (St. St.) skal eg taka það fram, að frá mínu sjónarmiði á sjóðurinn ekki að græða á þessu. Sem betur fer, eru drukknanir sjaldgæfar og fjöldi manna greiðir í sjóðinn án þess að njóta hans nokkurn tíma. Og þótt svo væri að sjóðurinn tapaði, þá álít eg réttara að landsjóður leggi til hans. Í lögunum frá 1909 er gert ráð fyrir, að landsjóður hlaupi undir bagga með sjóðnum og láni honum 15 þús. kr., er sjóðurinn borgi síðar meir. Mér þykir full ástæða til þess að leggi fé til sjóðsins, annað hvort í eitt skifti fyrir öll, eða árlega, til þess að iðgjöldin geti lækkað, og sjóðurinn þó staðið í skilum þrátt fyrir það.