10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

65. mál, skipun prestakalla

Flutningsm. (Sigurður Gunnarsson):

Eg held að háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hafi talað af sér, þar sem hann sagði, að hann mundi ekki verða réttlátari nú en á síðasta þingi. Eg hygg að hann hafi gert of lítið úr sér, því að eg ætla að honum geti altaf farið fram í réttlæti.

Háttv. þm. sagði, að ekki væri fengin reynsla fyrir prestakallalögunum, þar eð þau væru svo ung. Þetta getur vel verið alment talað. En að því er kemur til þessarar prestakallasamsteypu, geta kunnugir með vissu sagt fyrirfram, að hún mundi reynast allsendis óhæf. Það mun reynast ofætlun fyrir einn mann að þjóna slíku prestakalli og jafn mikil fjarstæða, að þær 5 sóknir, er hér ræðir um, gætu haft prestsins nein veruleg not. Þetta hljóta allir að játa, sem vilja kynna sér, hvílík vegalengdin er vestan frá Arnarstapa suður í Hnappadalsbotn, með öllum þeim torfærum, sem á þeirri leið eru, einkum að vetrarlagi.

Háttv. þm. talaði um prestakall á Austfjörðum, þar sem Lagarfljót skiftir sóknum. Þar þekki eg mjög vel til og get sagt háttv. þm., að Lagarfljót er engin sérleg torfæra.

Fyrst er þess að geta, að ferjustaðir eru víða á Lagarfljóti, þar sem það er nálega straumlaust, og þar næst má benda á, að tryggur ís er á því venjulega alla vetur. En þverárnar á Snæfellsnesi, þótt miklu vatnsminni séu, eru straumharðar, bólgna þráfaldlega upp og þá hvorki reiðar né gengar.

Sami háttv. þm. mótmælti því, að prestakallalögunum hafi verið flaustrað af á þinginu 1907, en eg verð að halda fast við þá skoðun mína, að í þessu atriði, er hér ræðir um, hafi þinginu illa missést.

Eg vil ekki taka frv. aftur; til þess er engin ástæða, þar sem hér er um mjög sanngjarnt mál að ræða. Frv. er komið fram samkvæmt margítrekuðum tilmælum og óskum safnaðanna, meðmælum héraðsfunda, þingmálafunda og biskups. Eg vona, að háttv. deild hugsi sig vel um, áður en hún skellir skolleyrum við þessu máli. Eg þekki svo vel til þessara eindregnu óska, að eg tel ekkert líklegra, en að söfnuðirnir sjái sig neydda til að ganga úr þjóðkirkjunni, ef endilega á að neyða upp á þá þessari óhæfilegu samsteypu. Eg endurtek ósk mína um nefnd í málið.