29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

149. mál, tollvörugeymsla o. fl.

Framsögum. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Mér er óhægt að vera framsögumaður í þessu máli, með því eg er því í raun og veru mótfallinn. Nefndin hefir klofnað í tvent. Meiri hlutinn játar, að ein afleiðing af þessum lögum sé sú, að kaup á áfengum drykkjum aukist, og það þeim, sem skaðlegastir eru, brendu drykkjunum.

Minni hlutinn vill ekki styðja að því, að háttv. deild samþykki þetta frumv. Afleiðing þess, að tollgreiðslufrestur yrði lengdur yrði sú, að kaupmenn mundu flytja meira áfengi inn í landið. Sem meðmæli með þessu frumvarpi hefir verið sagt, að útlendingar neyti svo mikils áfengis hér á landi, en að hagnýta sér það, virðist koma í bága við stefnu þings og þjóðar í þessu máli. Annars virðist mér, að það sé neyðarúrræði að auka tolltekjur landsins á þann hátt, að sem mest áfengi flytjist inn. En háttv. deild hefir með meðferð sinni á frv. háttv. þm. Ísafj.kaupstaðar (Sig. Stef.) neytt þá, sem ant er um hag landssjóðs, til að greiða þessu frumv. nú atkvæði.