06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

134. mál, barnafræðsla

Flutnm. (Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.):

Þegar eg sá, að frumv. stjórnarinnar um fræðslumál var vísað frá umræðum í efri deild, datt mér í hug að koma fram með frv. þetta. Eins og menn sjá, er að eins farið fram á, að fresta framkvæmd fræðslulaganna 2 ár. Það hafa margir þá skoðun, að skólaskylda barna undir 14 ára aldri, sé mjög bagaleg á ýmsan hátt. Fyrir þessu þarf eg ekki að færa frekari rök, það hefir svo oft verið gert. Að vísu hefi eg heyrt sagt, að fræðslumálastjórinn hafi litið svo á, að hægt sé, að hreppunum fornspurðum, að launa kennara, en eg lít svo á, að fræðslumálanefnd hafi ekki heimild til að ráða kennara, án þess að spyrja hreppsbúa eða hreppsnefnd að því. Hinsvegar er menning komin á svo hátt stig í landi voru, að ekki virðist vera brýn þörf á því, að hafa þessa skólaskyldu, því víða má trúa heimilunum fyrir uppfræðslu barnanna, og eg fyrir mitt leyti felli mig betur við, að skólaskyldualdurinn væri 14—16 ára aldurinn, eins og stungið var upp á í frumv. stjórnarinnar, því er Ed. ekki gat samþykt. Skal eg svo eigi fjölyrða meir um þetta mál að sinni, en vonast til, að þetta mál gangi til 2. umr.