30.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

118. mál, almenn viðskiptalög

Lárus H. Bjarnason:

Eins og háttvirtur forseti gat um er þetta frumvarp stjórnarfrumvarp að nafninu til, en heldur ekki meira en að nafninu til. Það er nánast eftirrit af þingmannafrumvarpi frá 1909, en það var aftur útlegging — nær orði til orðs — úr dönskum lögum frá 6. apríl 1906, en þau eru sem næst samhljóða sænskum lögum frá árinu á undan (20. VI. ’05) og norskum lögum frá árinu á eftir (24. V. ’07). En þessi lög voru undirbúin af dansk-norsk-sænskri nefnd og síðan samþykt nær óbreytt á þingi hverrar þjóðarinnar fyrir sig.

Frumvarpið flytur fá nýmæli, aðallega lögfestir þær reglur, sem farið hefir verið eftir einnig hér á landi.

Lögin eru engu að síður mikilsverð, enda orðuð lagaákvæði betri, en óorðaðar venjureglur.

Hér eru og allar reglur komnar á einn stað og er það hið mesta hagræði.

Lögin eru ekki skyldulög, jus cogens, heldur facultativ, það er lög, sem því að eins gilda að ekki hefir beinlínis eða óbeinlínis samist öðru vísi milli manna. Lögin eiga að eins við viðskifti um lausafé, en ná ekki til fasteigna.

Sérstaklega vil eg benda á sem mjög æskileg ákvæði 9.—11. greinina um staðinn, þar sem skila ber seldum hlut. Ennfremur á 17. gr. um ábyrgð á hættu fyrir seldan hlut. Og loks vil eg leiða athygli að 42.—54. gr. um það er seldum hlut er áfátt.

Það er mjög æskilegt. að fá þessar reglur tvímælalaust orðaðar, þótt farið hafi að vísu verið eftir þeim áður í dómum. Í frv. eru þó nokkur ákvæði, sem ekki geta staðist vegna gildandi laga, og er það að vísu ekki venjulegt um stjórnarfrumvörp, en mun hér vera því að kenna, að stjórnin hefir ekki notið nægilega góðrar lögfræðislegrar leiðbeiningar. 39. gr. gerir rangl. ráð fyrir nauðungarsamning að vorum lögum og verður því að fella þar að lútandi orð úr frumvarpinu. Og sama máli gegnir um ráðagerð sömu greinar um að kaupmaður „hætti greiðslum“.

Þá leggur nefndin til, að í stað: „Eldri venju eða lagaákvæða“, í 38. grein, komi: Ákvæði 2. gr. tilskipunar 27. maí 1859 sem stjórnin samkv. athugasemdum aftan við frumvarpið ekki hefir vitað um, að gildi hér á landi.

Í 40. gr. er gerður munur á þar um ræddum fresti eftir því hvort um innlend eða útlend viðskifti er að ræða, sem sé 3 eða 4 vikur, en þann mun virðist ekki ástæða til að gera og hallast nefndin eftir atvikum að 4 vikna frestinum frá útlöndum sem innanlands.

Aðrar breytingar eru flestar orðabreytingar eða að minsta kosti óverulegar og þykir því ekki þörf á að gera sérstaklega grein fyrir þeim. Brakúnar eru ekki til hér enn sem komið er, en geta risið hér upp og hefir nefndin því ekki amast við þessu.

Með þessum orðum vil eg fyrir hönd nefndarinnar mæla með því, að hin háttvirta deild samþykki frumvarpið.