11.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

134. mál, barnafræðsla

Jón Þorkelsson:

Þrátt fyrir góð kynni og gott álit á fræðslumálastjóranum, hygg eg, að þetta frumv. hafi við nokkur rök að styðjast. Eg hefi raunar ekki verið viðriðinn fræðslumál og það hefir háttv. þm. Vestm. (J. M.) ekki verið heldur, síðan þessi fræðslulög 22. nóvember 1907 komust í gildi. En eftir því, sem eg hefi orðið áheyrsla og áskynja um, hygg eg, að þessi lög séu ein hin óvinsælustu lög, sem út hafa gengið á þessu landi. Eg miða ekki við það, þótt þjóðin hafi gengið undir þau með nauðung, ef til vill mest fyrir kapp og forgang einstakra manna; þau eru jöfn landplága fyrir því. Það mætti og vera þessu til stuðnings, að fyrverandi ráðherra (B. J.) lagði einmitt fyrir þingið nýtt frumvarp um fræðslumál, en það hefir hann án efa gert af því, að honum hafa ekki þótt þessi lög frá 22. nóvbr. 1907 hentug og vegna kvartana almennings Þess vegna álít eg rétt að fresta framkvæmd laganna og greiði því atkvæði með frumvarpi þessu og mundi greiða atkvæði með frumv., sem færi fram á, að nema lögin alveg úr gildi. Yfir höfuð á illa við hér á landi ströng löggjöf um barnafræðslu. Heimilisfræðsla hefir hér jafnan verið góð, og þá aðferð tel eg hollasta. En með þessum fræðslulögum frá 1907 er settur á menn gífurlegur kostnaður. Enn er það og, að með slíkri fræðslu verður alt steypt í sama mótið, ef kenslan annars hefir nokkur áhrif, sem eg er í miklum vafa um, að öðru en þá heldur til spillis. Þetta mentunargutl og gukt, sem verið er að troða inn í fólkið, er ein spillingin, sem er að færast yfir landið. Fólkið þarf ekki þessa mentun alla, ef mentun skyldi kalla. Það þarf að læra það, sem því er holt og þarflegt er, það þarf að læra að vinna. Sú er líka raun á, að unglingarnir vita ekkert þegar kenslunni er lokið, og eru fyrir löngu leiðir á kenslustaglinu. Þetta eitt hefst upp úr skólunum, auk þess sem þeir hafa drepið þá forvitni og fræðafýsn, sem haldist hefir með þjóð vorri fram á vora daga, og hafa áunnið það, að margir unglingar fást ekki til að líta í bók, eftir að þeir eru úr skólanum slopnir.