13.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

134. mál, barnafræðsla

Hannes Hafstein; Mér kemur það kynlega fyrir, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) skyldi kalla fræðslulögin landplágu. Eftir hans orðalagi, sem hann svo oft og ötullega hefir barist fyrir í tillögum sínum hér á þinginu, hefði mátt búast við, að hann léti ekki sæma að nefna þau minna en þjóðplágu. Og það má, ef til vill, búast við þingsályktunartillögu frá honum, sem breyti nafninu í þessa átt. En hvað sem um það er, þá er það víst, að það er regluleg þingplága að heyra aðrar eins ræður, eins og þá, sem hann nú hélt um fræðslulögin, og sumar aðrar ræður hér um frestun ákvæðisins um fræðslusamþyktir. Fræðslusamþyktir eru nú komnar á í 166 hreppum, svo að eins rúmir 30 hreppar eru eftir, og er þó víst um marga af þeim, að þeir gangast undir lögin á næsta ári, ef þeir verða ekki hindraðir frá því með nýjum lögum. Það er að brjóta niður alla virðingu fyrir lögum og lagasetningu, að láta lítinn minni hluta landsmanna komast upp með það ár frá ári, að láta vera að fullnægja lögunum, og löggjafarvaldið sjálft löghelgi undanfærsluna með nýjum og nýjum frestunarlögum, alveg að ástæðulausu, að öðru en því, að lögin finna ekki náð í augum einstakra manna.