19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

134. mál, barnafræðsla

Flutnm. (Jón Jónsson N. Múl.):

Frv. þessu hefir verið tekið vel áður. Það, sem fyrir mér hefir vakað, er að takmarkalausri skólaskyldu sé ekki varpað á þjóðina. Þess vegna hefi eg komið með frv. þetta um að fresta framkvæmd 15. gr. laganna enn í 2 ár. Eg skal benda á það, að ekki er enn sem komið er kostur á boðlegum kennurum og þess vegna gæti verið nokkur ástæða til þess að fresta enn framkvæmd laganna. Auðvitað hefir þeim fjölgað nokkuð síðan á síðasta þingi, en þó ekki svo, að enn sé ekki skortur á þeim. Eg skal benda á út af því, sem sagt var við 2. umr., að á þinginu 1905 þótti mörgum athugavert að innleiða skólaskyldu. Margir merkir menn höfðu þá málið til meðferðar og álits sýslunefnda út um landið var leitað. Í nefndinni um fræðslulögin í efri deild sátu margir merkir menn, af þeim eiga ekki aðrir sæti á þingi nú en Sigurður Stefánsson. Og nefndinni í efri deild þótti eins og menn muna mjög athugavert að innleiða skólaskyldu. En hún vildi heimila þeim héruðum hana, sem vildu. Eg þykist tala í nafni margra manna, þegar eg vil fá lögunum frestað enn. Kostnaðurinn við framkvæmd laganna er svo mikill, að menn ættu ekki að hrapa að því að koma þeim í framkvæmd. Það er almenn skoðun, að skólaskylda barna eigi ekki við hjá okkur. En eg gæti fallist á að hafa skólaskyldu ungmenna, sem væru þroskuð. Tryggingin fyrir gagnlegri fræðslu barnanna er mjög lítil. En þetta fargan, sem hefir verið lagt á þjóðina með fræðslulögunum, er of dýrkeypt og þvingandi. Þetta er svo hófleg breyting, sem hér er farið fram á, að það raskar ekki framkvæmd laganna, þar sem hún er komin á, heldur að eins frestar framkvæmdinni, þar sem hún er ekki komin á enn.