06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

38. mál, byggingarsjóður

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Eg hefi leyft mér, að koma fram með þetta frumvarp hér í deildinni.

Eins og menn munu vita, var landsbankanum gert að skyldu 1885, er hann fékk seðlaútgáfuréttinn, að greiða 1% af seðlaupphæðinni í landsjóð. Þetta greiddi bankinn alt til 1905. Þá var byltingaöld. Þá var stofnaður byggingarsjóður og bankanum íþyngt með því að tvöfalda gjaldið, svo að það varð 2%. Þetta væri nú ekki svo tiltakanlegt, ef hagur bankans væri góður. En hann á í vök að verjast og auk þess eru honum lagðar með þessu þyngri byrðar á herðar en Íslandsbanka að tiltölu. Íslandsbanki hefir rétt til að gefa úr 2½ miljón króna í seðlum gegn tryggingu í gulli, ? af því, sem er í umferð. Meðalafgjald Íslandsbanka á árunum 1906—1909 af seðlum hefir verið 13386 kr. Seðlafúlga landsbankans er 750,000 kr. og ætti hann þá að tiltölu við Íslandsbanka að greiða 6427 kr. á ári.

Af þessu er augljóst, að landsbankanum er íþyngt meira að tiltölu en Íslandsbanka, og þar að auki stendur hann ver að vígi, að því leyti, að hann verður að leggja stórfé á kistubotninn fyrir veðdeildina. Eg vonast því til þeirrar sanngirni, að frumvarpið nái fram að ganga. Eg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti nefnd í málið, en sjálfur vil eg ekki stinga upp á henni.