21.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

8. mál, lögheiti á stofnunum

Flutnm. (Benedikt Sveinsson):

Með því að eg er einn af flutningsmönnum þessa frv., þykir mér hlýða að gera grein fyrir því með nokkrum orðum. Á síðasta þingi bar virðul. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) fram frumv. líks efnis þessu; miklu var það þó víðtækara en frumv. það, sem nú liggur fyrir. Frv. náði ekki fram að ganga þá, en samþykt var áskorun til stjórnarinnar um að leggja fyrir alþingi frumv. líks efnis. Með þessu félst deildin á, að málið væri athugunarvert, og vænti eg því, að þessu frumv. verði vel tekið. Stjórnin hefir nú ekki orðið við þessari áskorun þingsins, og því samdi virðul. flutningsmaður frv. á síðasta þingi þetta frv., sem hér liggur fyrir, og fékk okkur 2 með sér sem flutningsmenn, er á frv. standa.

Eg skal þá gera nokkura grein fyrir heitunum, og hirði þó ekki að fara ítarlega út í það mál. Eg skal fyrst benda á bókasöfn þau, sem kend eru við ömt. Þau heiti eru orðin úrelt, því að þær stofnanir eru ekki til hér lengur. ömtin voru einveldisstofnanir, settar upp á 17. öld, og stóðu til 1904. Eg vænti því, að menn verði fúsir á að lagfæra þetta, enda er nú sem betur fer, fátt eftir af einveldisstofnununum, eða ekkert, ef frá er skilinn landsyfirdómurinn. En nú liggur fyrir þinginu tillaga um að endurskoða dómaskipan í landinu, og er líklegt, að þar með verði þeirri stofnun, landsyfirdómnum, komið í annað horf. Vér leggjum til, að bókasöfnin verði kend við landsfjórðungana. Fjórðungur er eldgamalt heiti og þjóðlegt og hefir haldist allar götur frá því er Þórður gellir kom fram fjórðungsdómum á alþingi 965.

Viðvíkjandi því að setja »þjóð« fyrir »land«, má vera að sumum sé ekki ljós munurinn á því, en við nánari athugun býst eg við, að það skýrist fyrir mönnum. Með útlendum þjóðum er forskeytið »land« venjulega haft um minni háttar stofnanir, héraða eða sveitastofnanir, en allsherjarstofnanir eru kendar við þjóð (nation, national). En þar sem Ísland er sérstakt þjóðland, þá þótti oss réttara að taka upp orðið »þjóð« í heitum ýmsra stofnana, enda er orðið vel fallið til samskeyta.

Eg tel víst, að ekki muni allir verða á einu máli um heiti þau, er frumv. fer fram á að lögleiða, og tel því réttast að setja nefnd í málið. Leyfi eg mér að stinga upp á þriggja manna nefnd í það.