06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

34. mál, lögskráning mannanafna

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er nú hvorttveggja, að eg er hvorki læknir né yfirsetukona, enda er eg því óvanur að fást við ófullburða fóstur. Öll ræða háttv. þm. Dal. (B. J.) var um eitthvert frumv., sem ekki er fætt enn þá, en snerti varla þetta frv., sem hér liggur fyrir, og það lítið að hann mintist á það, virðist hann vera því heldur andvígur. Hann talaði um ættarnöfn og þótti þau óþjóðleg. En það er ekkert í þessu frumvarpi, sem bannar mönnum ættarnöfn. Þvert á móti gerir það ættarnöfnunum enn þá hærra undir höfði, því að þau eru hér undanþegin reglunni. Þau eiga að koma á undan skírnarnöfnunum, en hin ekki. Þetta frumv. segir ekkert um það, hvort menn eigi að heita synir eða dætur feðra sinna, heldur bannar það mönnum eingöngu að raða nöfnum hentuglega eftir stafrófsröð, t. d. á niðurjöfnunarskrám o. fl. þ. h. Engum dettur í hug að skrifa sig Jónsson Bjarna, en hraðvirkara er og hentugra, að svo standi á skránum. Því að enginn á nema 1 föður, en margir heita fleiru en einu skírnarnafni, og verður þá og verktöf að, ef menn þekkja þau ekki öll í röð. Eg man eftir því, að eg þurfti einhverju sinni að athuga aldur prestsins okkar síra Jóhanns Þorkelssonar, og fór að leita í stúdentatalinu, en fann það ekki á skránni, og leitaði eg lengi, þangað til eg datt ofan á Hans Jóhann Þorkelsson. Eg var búinn að gleyma þessu nafni mannsins, og eg hygg að varla muni fleiri en svo sem 10 af sóknarbörnum hans vita um þetta heiti. Svipað þessu hefir oftar komið fyrir mig. Einu sinni t. d. fann eg hvergi Júlíus Havsteen. Eg hringdi fóninum, og spurði J. H. af hverju það stafaði, og fékk þá að vita, að hann heitir Jóhannes Júlíus Havsteen. öðru sinni var eg að leita að Skafta Jósefssyni og varð eg þá að fara gegn um stafrófið frá byrjun, þangað til eg fann Björn Skafta Jósefsson.

Þetta er mál, sem ekkert snertir tungu þjóðarinnar, því menn munu nefna sig eins og áður, þrátt fyrir þetta. Þetta er eingöngu gert til hægðarauka, að raða eftir föðurnöfnunum. Eg get bent á það, að Grikkir nefna sig eins og vér, með skírnarnafni og föðurnafni. En

takið grískar bókaskrár, þar er þeim raðað eftir föðurnöfnunum, því að það gera allar þjóðir undantekningarlaust. Mér virðist það satt að segja kenna nokkurs harðræðis á þessari frelsistíð, að leggja lögbann við því, að menn raði í registrum, eins og handhægast er og varla annað en trúðleikur og skrípaskapur, að koma með annað eins frv. og þetta inn á þingið. Það hefir nóg önnur markverðari verkefni.

Alt þetta mikla tal háttv. flutnm. (B. J.) um óþjóðleg nöfn kemur þessu máli ekki við. Hér er hvort sem er í þessu frumv. gert ráð fyrir því, að ættarnöfn séu jafnrétthá og útlend nöfn, eða rétthærri en hin alíslenzku. Enn er það, að spurning getur orðið um það, hvenær nafn er íslenzkt og hvenær ekki. Nú heitir maðurinn Niels, og kalli sonur hans sig Nielsson, þá á það að koma á eftir skírnarnafninu, samkvæmt þessu frumv. En kalli hann sig Nielsen þá á það víst að koma á undan. Um þetta og þvílík markverð tilfelli þyrftu að vera ákvæði.

Alt er þetta markleysa ein, sem er ekki eyðandi tíma til og kemur auk þess ískyggilega nærri persónufrelsinu.