06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

34. mál, lögskráning mannanafna

Jón Sigurðsson:

Eg hafði búist við þessu líku frumv. frá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.). Það er hans andi, sem leikur um það. Þessi dragsúgur misskilins þjóðernisrembings. En hann hefir fundið þann kost vænstan, að mæla eigi fram með því sjálfur, því að hann veit að hann er hér eins og hræða í varpi. (Forseti: Eg vil áminna þingmanninn um að viðhafa sæmileg orð).

Það er þá fyrst, að hér á að fara að lögákveða, hvernig nöfn skuli bóka hér á landi. Eg veit nú ekki til, að ágreiningur sé um það, því að allir skrifa skírnarnöfnin fyrst. Lögin eru því fyrst og fremst óþörf, og svo ganga þau mjög nærri einstaklingsfrelsinu. Það er þetta sem sumir vilja, að setja lög um alla skapaða hluti, láta löggjafarvaldið reka nefið niður í hvern kopp og kyrnu svo að segja. En sú stefna vona eg að ekki fái að festa djúpar rætur, því að það veldur aldrei öðru en ófriði og óánægju. Um útlendinga er ekki nema sjálfsagt að gera undantekningu, því að þeir eiga ekki að gjalda þess, að þeir eru í ókunnu landi. Um innlend ættarnöfn er öllu vafasamara, en margt er það, sem mælir með þeim, einkum þegar fólkið fer að fjölga. Aðrar þjóðir hafa séð það fyrir löngu, hvílíkur ófarnaður stafar af því, að girða um of fyrir útlend áhrif, hlaða um sig nokkurs konar kínverskan múr, sem ekkert kemst inn fyrir. Eg segi fyrir mig, að eg vil feginn halda í það, sem þjóðlegt er og engu góðu glata, en séu útlendu áhrifin þannig vaxin, að þau geti orðið landi og þjóð til heilla, þá vil eg hafa þau. Og eg vil benda á Kínverja og Japana. Kínverjar bygðu endur fyrir löngu múr í kringum sig, til þess að girða fyrir öll útlend áhrif, og afleiðingin varð sú, að þeir hafa nú staðið í stað 2000 ár. Öðru máli er að gegna með Japana. Þeir hafa lært af óförum Kínverja. Þeir hafa samið sig að siðum annara þjóða, mest fyrir tilstilli keisara síns, sem er einhver frægastur maður, sem nú er uppi, sent menn til skólanáms til Evrópu o. s. frv. — Eins ættum við að gera. Þó að við enn höldum fast við okkar menningu, þá ættum við ekki að spyrna á móti framfara áhrifum frá þeim þjóðum, sem lengra eru komnar á menningarbrautinni, því að við erum orðnir allmikið á eftir. Það eina, sem eg gæti verið með í þessa átt, væri það að banna nafnaskrípi og vitlausan og óeðlilegan nafnasamsetning. En það mætti gera á annan hátt, en með lögum, og yfirleitt er þetta frumvarp þannig, að það ætti ekki að verða að lögum, og eg vona að það verði það aldrei.